Íslensk stjórnvöld beiti þrýstingi

Ungur Palestínumaður fær aðhlynningu á Kamal Edwan-sjúkrahúsinu á Gaza.
Ungur Palestínumaður fær aðhlynningu á Kamal Edwan-sjúkrahúsinu á Gaza. AFP

Alþjóðahjálparstarf kirkna, ACT Alliance, sem Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að, skorar á íslensk stjórnvöld að beita pólitískum þrýstingi á alþjóðavettvangi og beita öllum öðrum tiltækum ráðum til að stöðva átökin á Gaza þar sem missir mannslífa og þjáning íbúanna er óbærileg. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hjálparstarfi kirkjunnar.

„Alþjóðasamfélaginu ber skylda til að bregðast við og tryggja vernd og öryggi borgara og að alþjóðalögum um framgöngu í stríði, um vernd spítala og skóla sé hlítt. Íslensk stjórnvöld hafa fullgilda rödd í alþjóðasamfélaginu og ber að beita henni af fullum þunga.

Hundrað fjörtíu og fjórir ACT aðílar í 140 löndum með 25.000 starfsmenn og sjálfboðaliða bera fram sama ákall til stjórnvalda í sínum heimalöndum. ACT Alliance sinnir neyðarhjálp á svæðinu, veitir börnum sálfræðilegan stuðning og styður Ahli Arab Hospital með eldsneyti og lyfjum.

ACT Alliance brýnir fyrir íslenskum yfirvöldum að vinna að því af öllum kröftum að vopnahléi verði komið á, að alþjóðalögum um vernd og öryggi sé framfylgt svo hægt sé að framfylgja bráðnauðsynlegri neyðaraðstoð. Mannslíf eru í húfi og mikil þörf er fyrir lyf og vatn,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert