Lögðu hald á 132 karton af sígarettum

Varningurinn var falinn í skipunum.
Varningurinn var falinn í skipunum. Ljósmynd/Tollstjóri

Tollverðir lögðu hald á 132 karton af sígarettum í tveimur erlendum skipum fyrr í mánuðinum. Var varningurinn falinn í skipunum og ætlaður til sölu hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Tollstjóra. 

Við tollafgreiðslu fiskiskipsins NIDA frá Litháen tóku tollverðir eftir ósamræmi í skjölum. Við nánari eftirgrennslan komu í ljós 114 karton af sígarettum sem ætluð voru til sölu hérlendis án greiðslu aðflutningsgjalda og voru þau því haldlögð. Sekt hefur verið greidd fyrir brotið að upphæð 684.000 krónur og varningurinn gerður upptækur til förgunar.

Þá haldlögðu tollverðir 18 karton af sígarettum úr flutningaskipinu Horst B frá st. Johns. Sekt hefur verið greidd fyrir brotið að upphæð 108.000 krónur og varningurinn gerður upptækur til förgunar.

Í báðum tilvikum var varningurinn falinn í skipunum og ekki tilgreindur á tollafgreiðsluskjölum sem lögð höfðu verið fram við afgreiðslu. Málunum telst lokið af hálfu Tollstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert