Lokað á Arnarnesbrú í nótt

Víða er unnið að viðhaldi á vegum
Víða er unnið að viðhaldi á vegum Kristinn Ingvarsson

Í kvöld og í nótt verður unnið við malbikun á kaflanum frá Arnarnesbrú og að hringtorginu þar við. Hægt verður að aka út úr Akrahverfi á bráðabirgðavegi við hringtorg Bæjarbrautar og Arnarnesvegar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við malbikunina standi frá 20 til 07 í fyrramálið.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er Öskjuleið ófær nema fyrir breytta jeppa vegna vatnavaxta. Þeim sem eiga leið í Öskju að norðan er bent á að fara veg 910, þ.e. Austurleiðina.

Víða unnið að viðhaldi á vegum

Víða er unnið að viðhaldi á vegum, ekki síst endurnýjun á slitlagi. Vegagerðin beinir því til vegfarenda að sýna varúð og tillitsemi í slíkum aðstæðum og virða merkingar.

Jarðsig hefur verið viðvarandi á Siglufjarðarvegi að undanförnu og skvompur eða brot geta myndast skyndilega. Því eru vegfarendur beðnir að sýna sérstaka aðgát.

Þá vekur Vegagerðin athygli á því að brúin á Geitá á Langjökulsvegi, nr. 551, verður lokuð frá 12. ágúst til 22. september vegna framkvæmda.

Verið er að endurnýja rafkerfi í Múlagöngum og því má búast við umferðartöfum þar yfir daginn, milli kl. 08 og 18. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert