Samið verði um ódýrasta matinn

Krakkar í Grunnskóla Fjallabyggðar - Bæjarráð og fræðslu- og frístundanefnd …
Krakkar í Grunnskóla Fjallabyggðar - Bæjarráð og fræðslu- og frístundanefnd voru ekki á sama máli um hver skyldi sjá skólanum fyrir mötuneytismat. Skapti Hallgrímsson

Bæjarráð Fjallabyggðar hafnaði nýverið tillögu fræðslu- og frístundanefndar sveitarfélagsins að semja við Rauðku ehf. á Siglufirði um mat fyrir mötuneyti Grunnskóla Fjallabyggðar.

Tvö fyrirtæki, Allinn á Siglufirði og Höllin í Ólafsfirði, höfðu boðið lægra verð á mötuneytismat heldur en Rauðka. Bæjarráð rökstyður afgreiðslu sína, um að semja ekki við Rauðku, með því að benda á að eðlilegt og rétt sé að taka lægsta tilboði, og vísar í því samhengi til innkaupareglna Fjallabyggðar. 

Bæjarráð leggur áherslu á að rökstuðningur fylgi ávallt tillögum fagnefnda til bæjarráðs eða bæjarstjórnar og fylgi þeim reglum sem yfirstjórn bæjarfélagsins setur.

Fræðslu- og frístundanefnd hafði samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa meirihlutans, Nönnu Árnadóttur, Hilmars Hreiðarssonar og Ásdísar Sigurðardóttur gegn tveimur atkvæðum minnihlutans, Hólmfríðar Ó N Rafnsdóttur og Hjördísar Hönnu Hjörleifsdóttur að verðtilboði Rauðku yrði tekið fyrir bekkjardeildir á Ólafsfirði og Siglufirði. 

Nefndarmenn sögðu við mbl.is að afstöðu nefndarinnar hefði verið breytt en vildu ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert