Gæti orðið kalt að gista í tjaldi

Mikilvægt er að hafa góða dýnu og svefnpoka þegar gist …
Mikilvægt er að hafa góða dýnu og svefnpoka þegar gist er í tjaldi í köldu veðri. Wikipedia

Kalt gæti orðið að næturlagi um helgina og gæti hiti farið niður í tvær til þrjár gráður yfir nóttina. Á morgun, laugardag, er gert ráð fyrir skúrum víða um land, einkum sunnan- og vestantil. Þá er von á hægum vindi og nokkuð mildu veðri, hita 10 til 15 stig yfir daginn.

Á sunnudeginum má gera ráð fyrir strekkingi við suðurströndina og lítilsháttar vætu. Nokkuð gæti blásið í Vestmannaeyjum.

Húfa á höfðinu og einangrunardýna

Gott er að vera útbúinn góðum svefnpoka og góðri dýnu ef gista á í tjaldi þegar von er á köldu veðri. „Það heldur fólki heitu að hafa góða einangrun frá jörðinni.

Margir skáta kjósa að sofa í ullarnærfötum og með húfu en maður tapar miklum hita í gegnum höfuðið,“ segir Guðmundur Finnbogason, framkvæmdastjóri útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni og bætir við að gott sé að toga húfuna aðeins niður fyrir augun.

„Það sem flestir klikka á eru dýnurnar,“ segir Guðmundur og bendir á að best sé að hafa góða þunna og uppblásna einangrunardýnu.

Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn:

Hæg breytileg átt og skýjað með köflum, en síðdegisskúrir í flestum landshlutum. Áfram hægur vindur á morgun og skúrir, mestir á Suður- og Vesturlandi. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast suðvestantil. Svalara í nótt.

Á sunnudag:

Austan 8-13 m/s og lítilsháttar væta með suðurströndinni, en annars 3-8 og bjart með köflum, en líkur á síðdegisskúrum. Hiti 10 til 15 stig. 

Á mánudag (frídagur verslunarmanna):
Austlæg átt, 8-13 m/s og dálítil væta með suðurströndinni, en annars skýjað og þurrt að mestu. Norðlægari og fer að rigna austanlands með kvöldinu. Hiti víða 10 til 15 stig.

Fylgist með veðurspánni á veðurvef mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert