Með keppnina í blóðinu

Annie Mist varð önnur á heimsmeistaramótinu. Í fyrsta sæti varð …
Annie Mist varð önnur á heimsmeistaramótinu. Í fyrsta sæti varð Camille Leblanc-Bazinet frá Kanada og í þriðja sæti varð Julie Foucher frá Bandaríkjunum. Brian Sullivan

Annie Mist Þórisdóttir er komin á fulla ferð eftir langvarandi meiðsli og fékk silfur á heimsmeistaramótinu í crossfit um síðustu helgi. Auðvitað langaði hana að vinna en kveðst ekki geta verið ósátt. Stóri sigurinn hafi verið að komast heil í gegnum mótið.

Við taka nú krefjandi verkefni í Bandaríkjunum, bæði í keppni og uppbyggingu nýrrar crossfit-stöðvar en þær spretta nú upp eins og gorkúlur. Hugurinn er samt og verður heima á Íslandi enda líður Annie hvergi betur en hér í fásinninu.

Keppnisskapið lætur ekki að sér hæða

Annie segist líða vel nokkrum dögum eftir mót. „Ég fann ekkert til í bakinu á mótinu og var mjög fljót að jafna mig. Það er líka stór sigur. Ég er mjög ánægð með að hafa tekið þátt og náð öðru sæti. Rétt á eftir fór ég samt að hugsa: Af hverju gat ég ekki staðið mig örlítið betur og unnið,“ segir hún hlæjandi. Keppnisskapið lætur greinilega ekki að sér hæða.

Hún segir líkamann 100% eftir meiðslin en æfingarnar fyrir mótið hafi þó ekki verið eins og að var stefnt. „Frá og með janúar hef ég getað æft á fullu út af bakinu en síðan tognaði ég aðeins á hné sem þýddi að ég gat ekki beygt í töluverðan tíma.“

Bakmeiðslin létu fyrst á sér kræla í nóvember 2012 en Annie náði sér fljótlega á strik aftur. Það var svo í mars 2013 að hún meiddist aftur. „Ég var að lyfta þegar annar fóturinn dofnaði með þeim afleiðingum að ég fékk aftur í bakið. Þetta var seint um kvöld og fáir í salnum í Crossfit Reykjavík. Mér tókst að ganga inn á klósett en þar hneig ég niður og gat eiginlega ekki hreyft mig fyrir sársauka, auk þess sem ég fann varla fyrir vinstri fætinum. Ég fylltist skelfingu og fyrsta hugsunin var sú að ég væri búin að eyðileggja mig. Ég hringdi strax í mömmu og pabba sem hringdu á sjúkrabíl. Þegar hann kom fann ég að ég gat aðeins hreyft mig og leið strax betur. Á þeim tíma kveið ég því mest að geta ekki keppt og æft, jafnvel í langan tíma.“

Námið verður að bíða

Crossfit er tímafrek íþrótt og Annie æfir að jafnaði fimm til sex tíma á dag, auk þess að þjálfa, reka æfingastöð og ferðast vítt og breitt til að æfa og keppa. Fyrir vikið hefur háskólanám setið á hakanum en hún hefur þó tekið kúrsa í lífefnafræði og efnafræði við Háskóla Íslands án þess þó að sjá sig fyrir sér á þeim vettvangi í framtíðinni. 

„Ég hef meiri áhuga á íþróttasálfræði og hef tekið nokkra kúrsa í henni og haldið fyrirlestra út frá minni reynslu. Síðan er það læknisfræðin. Ég hef alltaf haft áhuga á henni og hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég er oft spurð hvar ég sjái mig eftir fimm ár en því miður get ég ekki svarað því.“

Ítarlegra viðtal við Annie Mist birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Annie Mist
Annie Mist Þórður Arnar Þórðarson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert