Óheimilt að birta eftirlitsmyndir

Óheimilt er að birta myndir úr eftirlitsvélum í fjölmiðlum að …
Óheimilt er að birta myndir úr eftirlitsvélum í fjölmiðlum að sögn Persónuverndar. Rax / Ragnar Axelsson

Óheimilt er að birta myndefni úr eftirlitsvélum í fjölmiðlum að sögn Persónuverndar. Einungis lögregla á að hafa aðgang efni sem sýnir meinta, refsiverða háttsemi og hún metur hvort ástæða sé til að birta upptökuna í þágu rannsóknar máls. 

Í tilkynningu Persónuverndar segir að athygli hafi vakið að nokkrum sinnum á þessu ári hafi myndir úr eftirlitsmyndavélum verið birtar opinberlega í fjölmiðlum í þeim tilgangi að reyna að hafa uppi á sökudólgum þegar grunur leikur á um að refsivert athæfi hafi átt sér stað á vöktuðu svæði.

Að því tilefni bendir Persónuvernd á að í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sé fjallað um hvenær miðla megi efni sem safnast við rafræna vöktun og hefur að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar. Þar segir að vöktunin þurfi að vera nauðsynleg og fari fram í öryggis- og eignavörsluskyni og að það efni sem til verður við vöktunina verði ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar.

Undantekning er þó á þessu þar sem heimilt er að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað en þá skal þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu og að því efni sem safnast við vöktunina verði eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita það, nema sérstök heimild Persónuverndar standi til frekari varðveislu. 

Þá var vakin athygli á bókum Persónuverndar þar sem Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, benti á að í sumum tilvikum hafi myndbirting eiganda verslunar tafið fyrir lausn máls, þar sem viðkomandi afbrotamenn hafi farið í felur eftir að upptakan hafi verið birt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert