Römbuðu á aukahlutverk í Bollywood-mynd

Hrafnkell og Friðrik - Hér má sjá ferðafélagana búningsklædda sem …
Hrafnkell og Friðrik - Hér má sjá ferðafélagana búningsklædda sem breska hermenn. Þeir voru að ferðast um Indland í fullkomnu sakleysi þegar þeim bauðst hlutverk í Bollywood-mynd. Sent af Hrafnkatli

„Við vorum að skoða virki frá tíma breska heimsveldisins í Lucknow þegar við allt í einu löbbuðum inn á kvikmyndasett þar sem er verið að taka upp fáránlegt dansatriði. Ég tók eftir því að nokkrir í tökuliðinu virtust mjög spenntir yfir nærveru okkar. Svo kom aðstoðarleikstjórinn til okkar og spurði hvort okkur langaði að vera aukaleikarar í einu atriði í myndinni.“

Þetta segir Friðrik Guðmundsson, en skömmu eftir þessa atburði voru hann og ferðafélagi hans Hrafnkell Hringur Helgason klæddir sem breskir hermenn, umkringdir af myndavélum og leikurum í tökum á nýjustu kvikmynd leikstjórans Muzaffar Ali. Þeir höfðu ákveðið að fara í allsherjar reisu allt frá Norður-Nepal til Suður-Srí Lanka og hafa verið á ferðinni síðan í maí.

Hoppuðu í lest til Delí

„Við höfðum ekkert sérstakt plan fyrir ferðina þannig við ákváðum að slá til,“ segja þeir í samtali við mbl.is, en tökur á myndinni fóru fram í indversku höfuðborginni. „Við vorum svo spenntir yfir þessu að við hoppuðum bara upp í lest beint til Delí í tökur,“ segja þeir.

„Við vissum nákvæmlega ekkert um myndina fyrr en einn af aukaleikurunum á settinu sagði okkur frá henni.“ Um var að ræða myndina Raqs sem kemur út í janúar. Hún gerist á 19. öld á tímabilinu sem Bretar eru að taka yfir gömlu konungsveldin í Norður-Indlandi. Strákarnir voru alls sextán tíma við tökur. Þeir lýsa andrúmsloftinu sem spennuþrungnu og ærslafullu, enda meira en hundrað manns við störf í kringum þá og margir að freista framans í kvikmyndaheiminum af fullri alvöru.

„Í senunni okkar eru allir aðalleikararnir. Sykursæti ungi aðalsmaðurinn hlýtur heiðursorðu frá breska kónginum og drottningunni fyrir vel unnin störf. Við Frikki erum þar í þjónustustörfum og færi ég til dæmis kónginum orðuna,“ segir Hrafnkell Hringur. „Ég geng jafnvel svo langt að segja að við kóngsi höfðum byggt upp ákveðna kemistríu þegar líða tók á tökurnar.“

Enduraðlagast vestrænni menningu

Nú eru ferðalangarnir staddir í Tyrklandi og fara bráðum að leggja leið sína heim. „Við erum að enduraðlagast vestrænni menningu í forgarði helvítis, Antalya á Tyrklandi.“ Friðrik ætlar í tónsmíðanám við Listaháskólann í haust og ætlar sér að verða kvikmyndatónskáld. Hringur fer í listfræði og mun sækja um á sviðshöfundabraut í LHÍ næsta vor. Báðir voru þeir hneigðir til leiklistar á menntaskólaárum sínum en aðspurðir segjast þeir ekki sækjast eftir frekari frama í Bollywood-heiminum.

„Ég sakna margra vina, en mest kannski hundanna minna, sem ég ætla mér að kúra með í sjö nætur eftir að ég kem,“ segir Hrafnkell og hlær.

Tökur - Þeir vissu ekki útí hvað þeir voru að …
Tökur - Þeir vissu ekki útí hvað þeir voru að fara en létu ekki tækifærið renna sér úr greipum. Hér afhendir Hrafnkell einum aðalleikara myndarinnar orðu. Sent af Hrafnkatli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert