Sendiráðið tekur mótmælin alvarlega

Bandaríska sendiráðið á Íslandi segir það ánægjuefni að Ísland sé land þar sem þúsundir manna geti komið saman með friðsælum hætti og haft tjáningarfrelsi til að koma skoðunum sínum á framfæri, líkt og gerðist í fjölmennum mótmælum við sendiráðið í gær, gegn blóðbaðinu á Gaza.

„Í gær kom mikill mannfjöldi saman við sendiráð Bandaríkjanna til að koma á framfæri skilaboðum til bandarískra stjórnvalda vegna ástandsins á Gaza,“ segir á Facebook-síðu sendiráðsins. „Þetta er málefni sem margir Íslendingar og margir Bandaríkjamenn hafa djúpstæðar skoðanir á, byggt á sterkri siðferðislegri sannfæringu.“

Félagið Ísland-Palestína stóð fyrir mótmælunum ásamt Amnesty á Íslandi og var m.a. skorað á Barack Obama Bandaríkjaforseta að stöðva blóðbaðið á Gaza tafarlaust.

Á Facebook-síðu sendiráðsins er áréttað að starfsfólk þar sé ekki í fylkingarbrjósti þegar kemur að því að móta stefnu Bandaríkjanna í þessu máli, en taki engu að síður mjög alvarlega ábyrgðarhlutverk sitt sem fulltrúar Bandaríkjaforseta hér á landi.

„Við viljum fullvissa alla þá sem mættu í gær um það að við tókum við og lásum bréfið sem Sveinn Rúnar Haukkson afhenti, fyrir hönd þeirra sem söfnuðust saman á Laugavegi í gær. Við höfum komið skilaboðunum á framfæri við viðeigandi kollega í Washington. Þakka ykkur fyrir.“

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

„Stöðvið blóðbaðið strax

Um tvö þúsund manns við sendiráðið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert