„Hef svarað því sem ég þarf að svara“

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

„Ég hef svarað því sem ég þarf að svara hvað þetta varðar og hef gert það eins nákvæmlega og samviskusamlega og ég hef getað. En meðferðferð málsins er ekki lokið og niðurstaða er ekki fengin. Hún verður að hafa sinn gang,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra um bréf sem ráðherra sendi til umboðsmanns Alþingis og birtist á vef Innanríkisráðuneytisins í kvöld. Þar tiltekur hún samskipti sín við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknar á lekamálinu svokallaða.

Hún segir að fréttaflutningur undanfarna daga af málinu dæmi sig sjálfan. „Ég er búin að segja það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu bréfi. Ég hef aldrei blandað mér í þessa rannsókn með óeðlilegum hætti á neinn hátt,“ segir Hanna Birna.

„Ég vona bara að menn líti á staðreyndirnar í málinu og meti þetta út frá þeim. Svo bíðum við eftir niðurstöðu ríkissaksóknara og bregðumst við í framhaldi af því,“ segir Hanna Birna.

Stefán í fríi 

Í bréfinu kemur m.a fram að hún eigi reglulega í samskiptum við undirmenn stofnana. Aðspurð hvort að hún hafi verið í samskiptum við Stefán frá miðvikudegi. „Eins og ég hef sagt þá er ég reglulega í samskiptum við mína undirmenn en ég veit ekki betur en  að Stefán sé í sumarfríi,“ segir Hanna Birna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert