Andlát: Unnur Arngrímsdóttir

Unnur Arngrímsdóttir.
Unnur Arngrímsdóttir. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Unnur Arngrímsdóttir, framkvæmdastjóri og danskennari, andaðist í fyrrakvöld á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð, 84 ára að aldri. Hún fæddist í Reykjavík 10. janúar 1930.

Foreldrar hennar voru Arngrímur Kristjánsson, skólastjóri í Melaskóla, og Henný Helgesen húsmóðir sem var norsk.

Unnur lauk danskennaranámi í Danmörku árið 1958 og í framhaldinu stofnaði hún dansskóla Hermanns Ragnars ásamt eiginmanni sínum, Hermanni Ragnari Stefánssyni sem andaðist árið 1997. Unnur stofnaði Danskennarafélag Íslands og var þar í stjórn í nokkur ár. Unnur var síðar útnefndur heiðursfélagi í danskennarafélaginu.

Þá stofnaði hún Módelsamtökin, samtök fyrir sýningarfólk, árið 1962. Þar voru haldin námskeið fyrir sýningarstúlkur og eru Módelsamtökin enn starfrækt.

Unnur var virkur félagi í Oddfellow-samtökunum og í skátunum. Undir lokin var hún í félagi eldri skáta.

Þá var hún skemmtanastjóri hjá ferðaskrifstofunni Samvinnuferðum- Landsýn í nokkur ár á síðari hluta 10. áratugar síðustu aldar.

Unnur gaf út bók sem heitir Njóttu lífsins árið 2008, þar sem hún fjallaði um mannleg samskipti.

Árið 2001 fékk hún viðurkenningu frá félagi kvenna í atvinnurekstri fyrir glæsilegan feril í starfi. Þótti hún mikill frumkvöðull.

Unnur giftist Hermanni Ragnari (f. 1927) í Dómkirkjunni árið 1950. Börn þeirra eru Henný, Arngrímur og Björn.

Útförin verður frá Bústaðakirkju föstudaginn 15. ágúst.

Unnur Arngrímsdótttir.
Unnur Arngrímsdótttir. mbl.is/Heiðar Kristjánsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert