Gylfi Ægis velkominn á Gay Pride

Hilmar Magnússon, formaður Samtakanna '78, fyrir miðju.
Hilmar Magnússon, formaður Samtakanna '78, fyrir miðju. Styrmir Kári

„Auðvitað viltu búa í samfélagi þar sem þú getur óáreittur verið þú sjálfur en ég held að það sé langt í að öllum fordómum verði útrýmt,“ segir Hilmar Magnússon, formaður Samtakanna 78 og bætir við að þó geti verið betra að fá fordóma upp á yfirborðið þar sem hægt sé að horfast í augu við vandamálið.

Félagsmenn samtakanna munu ganga með skilti með „bestu brotunum“ úr hinum umdeildu kommentakerfum í gleðigöngunni sem fram fer á laugardag. „Við erum að árétta það að baráttunni er ekki lokið. Þetta á að gefa innsýn í það hvernig umræðan er oft í netheimum. Þó svo að löggjöfinni þoki áfram er baráttan ekki búin. Þetta snýst líka um viðhorfin,“ segir hann.

Aðspurður hvort hann hafi heyrt eitthvað af ætlaðri kæru Gylfa Ægissonar vegna gleðigöngunnar í fyrra segist hann ekkert hafa heyrt meira af málinu. „Ég hef ekkert heyrt í Gylfa nýlega,“ segir hann hlæjandi. „En hann er að sjálfsögðu velkominn í gönguna til þess að taka þátt í gleðinni.“

Hjólað fyrst í minnihlutahópa

Hilmar telur ákveðið bakslag hafa orðið í baráttunni að undanförnu og segir það ef til vill mega rekja til þess að hún verði sýnilegri með hverju árinu. „Mér finnst sem fordómar og niðrandi athugasemdir hafi verið svolítið meira áberandi upp úr hruni og ég vil tengja það við almennan uppgang fasískra hreyfinga. Það er alltaf hjólað fyrst í minnihlutahópana og þegar fólk býr við efnahagslegt óöryggi og takmarkaða velferð er meiri hætta á að það brjótist út andúð. Það þarf víst alltaf að finna einhverja syndaseli og dæmi þess má finna víða í sögunni.“

Hann segir samkynhneigða vissulega alltaf hafa mætt einhverjum fordómum og andúð en hefur sérstakar áhyggjur af stöðunni í öðrum löndum. „Viðhorf almennings í Evrópu virðast ekki þokast í nógu góða átt. Í mörgum löndum í dag er við lýði skelfileg löggjöf. Margt er því enn óunnið.“

Skammgóður vermir í Úganda

Í desember í fyrra voru samþykkt ný lög í Úganda um hertar refsingar gegn samkynhneigðum en síðan þau tóku gildi í mars sl. hef­ur Am­nesty In­ternati­onal skráð snarpa aukn­ingu í geðþótta­hand­tök­um, lög­reglu­of­beldi og þving­un­um í garð hinseg­in fólks. Marg­ir misstu vinn­una og heim­ili sín eða voru þvingaðir til þess að flýja landið. Þann 1. ágúst ógilti stjórn­skip­un­ar­dóm­stóll í Úganda hins vegar lögin á grundvelli formgalla, þar sem of fáir full­trú­ar voru í þingsaln­um þegar lög­in voru samþykkt.

Sam­tök­in '78 hafa átt í miklu sam­starfi við syst­ur­sam­tök sín í Úganda og segist Hilmar heyra reglulega frá þeim. Hann óttast að málinu sé ekki lokið og hefur að því spurnir að þingmenn ætli að keyra nýtt frumvarp í gegnum þingið. „Ég hef heyrt að einhverjir ætli að skjóta þessu til æðra dómstóls en aðrir segjast vera búnir að safna stuðningi þingmanna til þess að knýja þetta aftur í gegn. Þetta virðist því einungis vera skammgóður vermir,“ segir hann.

Þó bendir hann á að óvíst sé hvað forseti Úganda, Yoweri Museven, muni gera ef slík staða kemur upp. „Málið  er orðið viðskiptalegs eðlis vegna þess að stjórnvöld í Bandaríkjunum og Norðurlöndum hafa til dæmis dregið úr efnahagsaðstoð og þetta hefur því efnahagslegar afleiðingar fyrir landið.“ Nefna má að John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hef­ur til dæmis líkt laga­setn­ing­unni við lög­in gegn gyðing­um sem sett voru á tím­um nas­ista í Þýskalandi. „Það er alveg skelfilegt að segja en það viðrist vera stemning fyrir þessu frumvarpi á æðstu stöðum og ég held því að þetta dúkki aftur upp,“ segir Hilmar. 

Fagnaðarlæti brutust út eftir að stjórnlagadómstóll í Úganda ógilti harða …
Fagnaðarlæti brutust út eftir að stjórnlagadómstóll í Úganda ógilti harða löggjöf um samkynhneigð AFP
Hilmar segir Gylfa Ægisson vera velkominn í gleðigönguna.
Hilmar segir Gylfa Ægisson vera velkominn í gleðigönguna. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert