Kynnt sem „power-lesbían“

mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóhanna Sigurðardóttir var í kvöld kynnt á sviðið í Silfurbergi í Hörpu á opnunarhátíð Hinsegin daga. Mikil leynd var yfir komu Jóhönnu og kom það gestum skemmtilega á óvart þegar forsætisráðherrann fyrrverandi steig á sviðið og flutti ávarp við frábærar undirtektir.

„Mörg okkar, sem hér eru saman komin, deilum þeirri reynslu að hafa búið við ótta, sársauka, togstreitu og sjálfsásakanir sökum þess að við þurftum - eða töldum okkur þurfa - að fela tilfinningar okkar vegna skilningsleysis umhverfisins.“ Svona hóf Jóhanna ávarp sitt í kvöld. Þá þakkaði hún Samtökunum 78 fyrir að hefja réttindabaráttu hinsegin fólks og sagði samtökin hafa uppskorið ótrúlegan árangur þótt oft hafi verið miklar hindranir á veginum.

Ísland í fremstu röð

„Nú á 21. öldinni hafa flestir Íslendingar sem betur fer losað sig við fordóma í garð hinsegin fólks og nú er Ísland í fremstu röð þjóða sem tryggja þessum þjóðfélagshópi jafnan rétt á við aðra. Það er því gaman að vera Íslendingur á erlendri grund og geta sagt frá þessari þrotlausu baráttu ykkar sem svo miklu hefur skilað.“

Jóhanna vék einnig að ástandinu víða í heiminum og sagði það þyngra en tárum tæki að svokölluð anti-gay-lög skyldu vera í gildi í yfir 80 löndum og dauðadómur lægi við samkynhneigð í allt að 10 löndum. 

Margt þarf að gera betur

„Það sem helst kemur í veg fyrir vitræna umræðu um málefni hinsegin fólks er vanþekking. Það er algjörlega ólíðandi ástand í heimi sívaxandi þekkingar,“ sagði Jóhanna.

Þá sagði hún að gera þyrfti betur, enda væri réttarstaða hinsegin fólks víða verri í dag en hún var fyrir tveimur árum þegar Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, harmaði átakanlegar aðstæður samkynhneigðra. 

„Til dæmis mætti skoða hvort ekki sé rétt að koma á laggirnar sérstakri alþjóðlegri stofnun undir formerkjum Sameinuðu þjóðanna - stofnun sem hefði það markmið að berjast af krafti gegn kúgun og vanþekkingu í garð hinsegin fólks alls staðar í heiminum.“

mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert