Íslensku berin komin í búðir

Logi Helgason, eigandi verslunarinnar Vínbersins á Laugavegi, ásamt starfsmanninum Kristínu …
Logi Helgason, eigandi verslunarinnar Vínbersins á Laugavegi, ásamt starfsmanninum Kristínu Rún Gunnarsdóttur. Mjög góð berjaspretta hefur verið á Norður- og Austurlandi, þökk sé hlýindum og sólskini. mbl.is/Styrmir Kári

Íslensk ber eru nú komin í búðir og njóta þau mikilla vinsælda. Logi Helgason, eigandi búðarinnar Vínbersins á Laugaveginum, segir íslensk ber fljúga úr hillunum.

„Við höfum selt fersk ber í nokkur ár. Fyrstu sendingar komu fyrir stuttu en venjulega byrjar íslenska berjatínslutímabilið ekki fyrr en um miðjan ágúst. Þetta eru aðallega Íslendingar sem kaupa berin en einnig útlendingar að einhverju leyti.“

Þá segir Logi að margir bíði spenntir á þessum árstíma. „Margir bíða spenntir eftir því að berin komi ár hvert. Ég fæ oft spurningar í júlí um hvenær berin fari að koma. Íslensku berin eru nefnilega afar gott hráefni. Ef við fáum góð bláber í búðina þá hverfa þau strax úr hillunum. Við höfum hingað til verið að selja bláber, aðalbláber og krækiber.“

Mæta ekki eftirspurninni

 Þá var spurt hverjir tíndu bláberin. „Það er fólk úti á landi sem tínir bláberin. Svo er þetta oft líka fólk í sumarfríum og auðvitað tínir bændafólk líka mikið. Í fyrra var ekki tínt nóg af berjum til að mæta eftirspurninni. En í fyrra var reyndar sérstaklega slæmt ár fyrir sprettu berja. Ómögulegt er samt að mæta eftirspurninni ef berin eru góð, því þá rjúka þau út um búðardyrnar. Eftirspurnin fer mikið eftir gæðum berjanna þannig að salan getur verið mjög misjöfn. Hún hleypur allavega á tugum kílóa á viku á sumrin,“ segir Logi um stöðu mála.

Bjarni Óskarsson, eigandi Valla í Svarfaðardal, selur bláber og krækiber til búða og fyrirtækja á Íslandi. „Þetta ár hefur byrjað rosalega vel. Berjasprettan hefur aldrei verið meiri hér á Norðurlandi. Ég kaupi ber af fólki og við vinnum síðan úr þeim. Við fengum fyrstu berin 22. júlí, sem er mjög snemmt, en veðrið hefur verið æðislegt og það hjálpar mikið. Við seljum berin mest fersk til verslana Víðis. Við höfum verið að framleiða nokkrar afurðir úr berjunum, til dæmis sultur og álíkar vörur. Þá má nefna að Emmessís framleiðir ís úr berjunum okkar og Vífilfell hefur verið að brugga bjór úr þeim.“

Mjög góð berjaspretta hefur verið á Norður- og Austurlandi. Þökk …
Mjög góð berjaspretta hefur verið á Norður- og Austurlandi. Þökk sé hlýindum og sólskini. mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert