Ákæra ekki birt lögreglumanninum

Mál á hendur lögreglumanninum í LÖKE-málinu svokallaða verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þriðjudaginn 19. ágúst, en ríkissaksóknari hefur ekki birt honum ákæru samkvæmt upplýsingum frá verjanda hans.

Áður höfðu mál gegn tveimur mönnum sem einnig voru til rannsóknar verið felld niður hjá ríkissaksóknara, en þar var annars vegar fyrrverandi starfsmaður símfyrirtækisins NOVA og lögmaður. Þeir hyggjast leita réttar síns varðandi rangar sakargiftir og krefjast skaðabóta frá ríkinu, en þeir misstu báðir vinnuna í kjölfar málsins. 

Málið hófst þegar þrír menn, þar á meðal lög­reglumaður á höfuðborg­ar­svæðinu, voru hand­tekn­ir í apríl í tengsl­um við óeðli­leg­ar flett­ing­ar í mála­kerfi rík­is­lög­reglu­stjóra, LÖKE. Talið var að lögreglumaðurinn ákærði hefði not­fært sér aðgang sinn að kerfinu meðal ann­ars til að graf­ast fyr­ir um fórn­ar­lömb kyn­ferðisof­beld­is. Hinir þrír handteknu hafi síðan deilt upplýsingum milli sín í lokuðum hóp á Facebook. 

Lögreglumanninum var vikið tímabundið úr starfi vegna rannsóknar málsins. 

Uppfært 15:13: Lögreglumanninum hefur enn ekki verið birt ákæra, þrátt fyrir áætlaða þingfestingu málsins að sögn lögmanns hans, Garðars Steins Ólafssonar. Ennfremur segist Garðar hafa óskað eftir fundi með saksóknara í málinu og skýringum á því hvaða háttsemi lögreglumannsins sé talin grundvöllur ákæru, en fullnægjandi svör ekki borist. 

„Hér hlýtur að vera um einhver nýmæli að ræða, þegar ákært er án þess að fundist hafi sönnur um neitt saknæmt og ákærða er gert að sanna sakleysi sitt,“ segir Garðar m.a. í svari sínu til mbl.is.

Uppfært 16:09: Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að ákæra hafi verið gefin út á hendur ákærða, en ekki verið birt honum enn. Aðspurð hvers vegna mál á hendur öðrum kærðu var fellt niður en lögreglumaðurinn ákærður segir Kolbrún rannsóknargögn ekki hafa verið talin sýna fram á refsiverða háttsemi af hálfu hinna tveggja mannanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert