Evrópuríkin þurfa að efla varnir sínar

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO.
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO. mbl.is/Árni Sæberg

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, segir í samtali við mbl.is að framferði Rússlandsstjórnar í Úkraínu kalli á efldar varnir bandalagsþjóðanna, einkum í austurhluta Evrópu.

Hann telur framferði Rússa í utanríkismálum kalla á breytt öryggismat í Evrópu. Ríki álfunnar muni þurfa að verja meira fé til varnarmála en á undanförnum árum, svo tryggja megi jafnvægi í varnarmálum í Evrópu. Þá nefnir hann frekari efnahagsþvinganir sem mögulegt úrræði gegn Rússum vegna aðgerða þeirra í Úkraíníu.

Rasmussen gaf kost á viðtali í aðalsal utanríkisráðuneytisins í kvöld, að loknum fundi með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, sem lesa má um hér.

Viðbragðsgetan verður efld

Rasmussen segir að gerð verði grein fyrir frekari aðgerðum af hálfu NATO gagnvart Rússum á leiðtogafundi bandalagsins í Wales 4.-5. september næstkomandi. Lesa má um fundinn hér.

„Viðbrögð okkar við ólöglegum hernaðaraðgerðum Rússa í Úkraínu eru þríþætt. Í fyrsta lagi höfum við styrkt sameiginlegar varnir okkar til að tryggja skilavirkar varnir bandamanna okkar. Má þar nefna eflda loftrýmisgæslu í Eystrasaltsríkjunum þremur [Eistlandi, Lettlandi og Litháen], staðsetningu herskipa á Eystrasalti og Svartahafi og fjölgun heræfinga í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi. Við munum grípa til frekari aðgerða á leiðtogafundi NATO í Wales í september og meðal annars efla viðbragðsgetu hjá viðbragssveitum NATO, þannig að bandalagið geti brugðist hraðar við ef þörf krefur. Jafnframt mun meira bera á veru okkar í Austur-Evrópu,“ segir Rasmussen og nefnir fleiri dæmi um efldar varnir.

Byggi upp hernaðarmátt Úkraínu

„Í öðru lagi aukið samstarf við Úkraínu í varnarmálum. Við höfum ákveðið að aðstoða Úkraínu hvað varðar umbætur og nútímavæðingu á herafla landsins og byggja þannig upp hernaðarmátt Úkraínu. Í þriðja lagi er það samband NATO við Rússland. Við tókum þá ákvörðun í apríl sl. að hætta öllu samstarfi við Rússland. Svo lengi sem Rússar fara ekki eftir grundvallarreglum okkar getur samstarf NATO við Rússland ekki fallið í eðlilegt horf.“  

Nánar verður rætt við Rasmussen um breytta stöðu í varnarmálum Evrópu í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert