Ákærður fyrir tvö brot í opinberu starfi

Ríkissaksóknari hefur birt lögreglumanninum í LÖKE málinu ákæru fyrir tvö brot í opinberu starfi. Þetta staðfestir verjandi hans í samtali við mbl.is.

Fyrri ákæruliður tengist meintum óeðlilegum flettingum í málaskrárkerfi lögreglunnar, LÖKE, á tímabilinu 7. október 2007 til 16. nóvember 2013. Maðurinn er sakaður um að hafa misnotað stöðu sína sem lögreglumaður þegar hann fletti upp nöfnum 45 kvenna í kerfinu og skoðaði upplýsingar um þær, án þess að flettingarnar tengdust starfi hans í lögreglunni.

Í síðari ákærulið er hann sakaður um að hafa þann 20. ágúst 2012 sent tölvuskeyti á samskiptasíðunni Facebook um afskipti sín af ungum manni í starfi sínu sem lögreglumaður, sem átti að fara leynt.

Annars vegar er maðurinn ákærður fyrir brot á 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hins vegar brot á 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þriðjudaginn 19. ágúst.

Upphaflega voru þrír menn handteknir í tengslum við málið, lögreglumaðurinn, starfsmaður símfyrirtækisins NOVA og lögmaður á lögmannsstofunni LEX. Mál á hendur hinum tveimur síðarnefndu voru hins vegar felld niður. Þeir misstu þó báðir vinnuna í kjölfar handtakanna og hyggjast leita réttar síns og krefja ríkið um skaðabætur.

Segir eðlilegt að lögreglumenn fletti upp eldri málum

Garðar Steinn Ólafsson, verjandi lögreglumannsins, segir í yfirlýsingu ljóst af efni ákæru að rannsókn hafi ekki leitt í ljós að neitt af því sem haldið var fram af lögreglunni á Suðurnesjum sem ástæða handtöku og rannsóknar hafi átt við rök að styðjast. Jafnframt segir hann fréttaflutning um ýmsa fjarstæðukennda hluti sem lögreglumaðurinn eigi að hafa gert hafa reynst honum þungbæran og engin rök hafi verið fyrir slíkum fullyrðingum.

Þannig hafi engum upplýsingum verið deilt og enginn lokaður Facebook-hópur hans og vina hans haft að geyma umræður eða upplýsingar sem komu lögreglu við. 

„Svo virðist sem ákæruvaldið telji það eitt að ákærði hafi ekki verið skráður lögreglumaður á vettvangi nægja til að uppfletting á máli í LÖKE tengist ekki starfi hans og uppflettingin ein og sér sé þannig brot í opinberu starfi,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Þá segir hann lögreglumenn fletta upp eldri málum við úrlausn þeirra mála sem þeir hafi til meðferðar hverri stundu, þrátt fyrir að vera ekki skráðir lögreglumenn á vettvangi í þeim eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert