Fundaði ekki með Stefáni um lekann

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis óskaði eftir upplýsingum frá Hönnu Birnu …
Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis óskaði eftir upplýsingum frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um samskipti hennar við Stefán Eiríksson.

Hanna Birna Kristjánsdóttir segir að frá því rannsókn lögreglu hófst á lekanum úr innanríkisráðuneytinu hafi hún átt fjóra fundi með Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra, en ítrekar að enginn þeirra hafi verið boðaður eða haldinn til að ræða rannsóknina sérstaklega. Hún býður umboðsmanni Alþingis að koma í ráðuneytið til að kynna sér gögn í málinu.

Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu við ítrekaðri fyrirspurn Tryggva Gunnarssonar umboðsmanns Alþingis vegna samskipta hennar við lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í tengslum við rannsókn á lekamálinu.

Hanna Birna segir að tveir fyrri fundirnir hafi verið ákveðnir í sameiningu af henni og Stefáni, en ráðuneytið hafi boðað Stefán á seinni tvo fundina. Tilefnið hafi verið að ræða löggæslumál almennt.

Hún segir jafnframt að þau símtöl sem hún hafi átt við Stefán, frá þeim tíma sem rannsóknin hófst, hafi ekki varðað tiltekin mál sem formlega hafi verið til umfjöllunar í ráðuneytinu.

Svar Hönnu Birnu í heild er eftirfarandi:

„Ég vísa til erindis yðar frá 6. þ.m. þar sem þér óskið eftir nánari tilgreindum upplýsingum og gögnum varðandi samskipti mín við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu frá þeim tíma er rannsókn lögreglu hófst á því hvort og þá hvernig trúnaðarupplýsingar um tiltekinn hælisleitanda hefðu borist úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla.

Þá vísa ég einnig til svars míns frá 1. þ.m. við fyrra erindi yðar varðandi þetta mál, dags. 30. f.m. Ég ítreka það sem þar kom fram að bæði ég og starfsmenn ráðuneytisins höfum gert allt sem í okkar valdi hefur staðið til að greiða fyrir umræddri lögreglurannsókn og að ég hef hvorki reynt að hafa áhrif á rannsóknina né þá sem henni stjórna.

Í erindinu leggið þér fram fyrirspurnir í fimm liðum. Er þeim hér svarað í sömu röð:

1.    Þeir fundir sem ég hef átt með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu frá því að umrædd rannsókn hófst fóru fram í innanríkisráðuneytinu 18. mars, 3. maí, 16. júlí og 18. júlí sl. Enginn þessara funda var, líkt og fram kemur í fyrra svari, boðaður eða haldinn til að ræða rannsóknina sérstaklega.

2.    Fyrri fundirnir tveir, sem fram fóru 18. mars og 3. maí, voru ákveðnir í sameiningu af mér og lögreglustjóra í kjölfar samtala okkar á milli. Eins og áður hefur komið fram á ráðherra eðli máls samkvæmt regluleg samskipti við forstöðumenn undirstofnana ráðuneytisins tengd þeim málaflokkum sem stofnanirnar sinna. Tilefni fundanna var að upplýsa mig almennt um löggæslu- og öryggismál og stöðu ýmissa verkefna á því sviði. Á þessum fundum voru engin gögn lögð fram og ekki skrifuð fundargerð, enda voru þar ekki til umfjöllunar mál sem til meðferðar voru í ráðuneytinu.

Rétt er að taka fram að þegar ég tók við starfi mínu sem innanríkisráðherra bar lögreglustjórinn undir mig þá venju sína að upplýsa ráðherra reglulega um gang mála er varðar löggæslumál á höfuðborgarsvæðinu. Það sama hafði hann gert þegar ég gegndi embætti borgarstjóra á árunum 2008-2010. Það var samkomulag okkar á milli að hann myndi halda þessari venju áfram.

Til fundanna 16. og 18. júlí var boðað af hálfu ráðuneytisins. Rétt er að taka fram að þá hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokið rannsókn fyrrnefnds máls og sent rannsóknargögn til ríkissaksóknara (nánar tiltekið þ. 20. júní).

Tilefni fundarins 16. júlí var að ræða við lögreglustjóra sem annan þeirra umsækjenda sem hæst höfðu verið metnir af þeim sem sótt höfðu um starf forstjóra Samgöngustofu. Fundurinn 18. júlí var haldinn í framhaldi af því eftir að lögreglustjóri hafði dregið umsókn sína til baka. Þá tilkynnti lögreglustjóri mér að hann hygðist taka við starfi hjá Reykjavíkurborg og ræddi um leið hvernig hann vildi standa að starfslokum sínum sem lögreglustjóri.

3.    Í fylgiskjali I hafa verið teknar saman þær gagna- og rannsóknarbeiðnir lögreglu sem beint var til innanríkisráðuneytisins eftir að umrædd rannsókn hófst í febrúar sl., sem og svör ráðuneytisins. Um er að ræða 5 beiðnir. Beiðni dags. 10. febrúar sem svarað er 12. febrúar, beiðni dags. 28. febrúar sem svarað er 4. mars, beiðni dags. 4. apríl sem svarað er 8. apríl, beiðni dags. 6. maí sem svarað er samdægurs og beiðni dags. 7. maí sem einnig er svarað samdægurs.

4.    Í reglum um skráningu formlegra samskipta í Stjórnarráði Íslands nr. 1200/2013, sem þér vísið til í erindi yðar, kemur fram að skrá skuli í málaskrá ráðuneytis formleg samskipti og formlega fundi milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess. Þar sé m.a. átt við símtöl sem varði tiltekið mál sem formlega er til meðferðar í ráðuneyti, sem og fundi sem formlega er boðað til um tiltekið mál sem til meðferðar er í ráðuneyti.

Þau símtöl sem ég hef átt við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu frá þeim tíma sem framangreind rannsókn hófst hafa ekki varðað tiltekin mál sem formlega hafa verið til umfjöllunar í ráðuneytinu. Þá voru slík mál ekki til umræðu á þeim fundum sem ég átti með lögreglustjóra 18. mars og 3. maí, eins og áður hefur komið fram.

Fundir mínir með lögreglustjóra 16. og 18. júlí vörðuðu hins vegar tiltekið mál sem til umfjöllunar var í ráðuneytinu, þ.e. ráðningu nýs forstjóra Samgöngustofu. Fundir þessir voru skráðir í dagbók ráðherra en þeir voru hins vegar ekki að öðru leyti skráðir í málaskrá ráðuneytisins.

5.    Ráðuneytið leggur mikla áherslu á skráningu formlegra samskipta í málaskrá í samræmi við tilvitnaðar reglur, sem tóku gildi undir lok síðasta árs, en þess má geta að sambærilegar reglur hafa verið í gildi í ráðuneytinu frá stofnun þess. Í  fylgiskjali II er að finna sýnishorn af því hvernig staðið er að slíkum skráningum í ráðuneytinu. Þar sem heildarskrá ráðuneytisins inniheldur m.a. ýmsar viðkvæmar persónuupplýsingar í fjölda mála býð ég yður að kynna yður þessi gögn hér í ráðuneytinu að því marki sem þér teljið þörf á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert