Íslendingar í Noregi eru vinsælir

Norska Stórþingið.
Norska Stórþingið. Ljósmynd/Norden.org

„Þetta byrjaði þegar ég stóð í flutningum og fann íslenska vegabréfið mitt og sá að það var útrunnið fyrir tveimur árum síðan. Það voru því tvö ár síðan ég hafði síðast verið Íslendingur, formlega séð,“ segir Mímir Kristjánsson, rithöfundur. Hann vinnur nú að bók sem á að fjalla um ástandið á Íslandi í dag, og hvers vegna Íslendingar hafi flykkst til Noregs í stórum stíl.

Mímir á íslenskan föður og norska móður. Hann er uppalinn í Stavangri í Noregi og starfar nú sem blaðamaður hjá norska blaðinu Klassekampen. Hann er virkur þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni í Noregi, hann var formaður ungliðahreyfingar flokksins Rödt og svo er hann pistlahöfundur í Aftenposten, þar sem hann sér um að gagnrýna vinstri-flokkana á norska Stórþinginu, frá sjónarhóli vinstrimanns. Hann er höfundur tveggja bóka, De superrike og Slik blir du superrik.

„Mér var hugsað til landsins, og hvernig ástandið sé hérna. Ég kem hingað um það bil einu sinni á ári, en Norðmenn hafa lítið frétt af landinu eftir að öldurnar tók að lægja í kjölfar fjármálakreppunnar. Það er því mitt verkefni að finna út hvort kreppan sé búin, og hvernig áhrifin voru á samfélagið,“ segir Mímir.

Áður en hann kom ákvað hann að fletta upp ætt sinni á Íslendingabók, en Norðmönnum finnst bókin afar merkileg. „Ég bjóst við að finna í ættinni hetjur og fræknimenni, en svo kom í ljós að forfaðir minn kom til Íslands frá Noregi með svartadauðann. Það fyndna er að hann lifði veikina af sjálfur, en var svo stunginn til bana stuttu seinna, svo hann fékk makaleg málagjöld,“ segir Mímir og hlær.

Sjálfstæðisbaráttan komin hringinn

Hann uppgötvaði svo nýlega Fylkisflokkinn, sem hefur það að markmiði að Ísland verði að fylki í Noregi. „Ég veit ekki hversu alvarlega það á að taka þá hugmynd en þetta er mjög áhugaverð pæling. Öll saga Íslands fjallar um baráttuna fyrir sjálfstæði, Sjálfstæðisflokkurinn, Sjálfstætt fólk. Svo tókst það árið 1944 og nú eru einhverjir sem vilja gefa það upp á bátinn. Fylkisflokkurinn fer auðvitað mjög langt með sína hugmynd, en það hafa aðrar vægari hugmyndir komið fram, um upptöku Kanadadollars, Evrópusambandsumræðan og fleira.“

„Síðan hafa auðvitað einhverjir ákveðið að greiða atkvæði með fótunum og flust til Noregs. Frá árinu 2009 hefur fjöldi Íslendinga í Noregi aukist um 100%, auk þess að einhverjir vinna þar tímabundið í nokkra mánuði á ári. Um tvö prósent af íslensku þjóðinni býr því í Noregi.“

Ísland eins og landsbyggðin í Noregi

Mímir segir Norðmenn almennt hafa mikinn áhuga á Íslandi. „Þeir hafa áhuga á Íslandi, íslenskri menningu, tungu og bókmenntum. Það er litið svo á að þetta sé allt hluti af sögu Noregs, sem Norðmenn sjálfir hafa glatað.“

„Það er enginn vafi á því að margir Norðmenn hafa mjög framandi hugmyndir um Ísland, líkt og margir ferðamenn. Að þeir trúi á álfa, og séu mjög sérstakir. Hins vegar er Ísland mjög líkt Noregi að mörgu leyti. Ísland minnir mikið á landsbyggðina í Noregi. Samt hafa Norðmenn það á tilfinningunni að Íslendingar séu norskri en þeir að mörgu leyti því Norðmenn hafi glatað hluta af tungumálinu og menningunni.“

Mímir segir Íslendinga vera opnari en Norðmenn. „Mér finnst Íslendingar ekki jafnfastir í rétttrúnaði og föstum skorðum. Norðmenn eru líkari Svíum að því leytinu til, að þeir eru með fastar reglur sem þeir fylgja í einu og öllu. Íslendingar taka málin meira í eigin hendur.“

Norðmenn tækju Íslendingum opnum örmum

Til þess að setja hlýhug Norðmanna í garð Íslendinga í samhengi, bendir hann á umræðuna um innflytjendur. „Íslendingar í Noregi eru vinsælir, þótt þeir séu margir. Jafnvel þegar Svíar flytjast til Noregs til þess að finna vinnu, myndast svolítil ókyrrð í landinu. Það á ekki við um Íslendinga, sem þykja harðduglegir,“ segir Mímir. Hann telur að ef Norðmenn yrðu spurðir hvort Íslendingar mættu ganga í ríkið, myndu þeir segja já. Það setji Íslendinga í algjöra sérstöðu, því almenningur í Noregi myndi sennilega ekki samþykkja neitt annað ríki en Ísland.

Að sama skapi og Norðmenn hafa sérstaka hugmynd um Ísland, er ímynd Íslendinga af Noregi einnig svolítið skökk, að sögn Mímis. „Noregur er auðvitað ríkt land, og með sterkan gjaldeyri sem gagnast þeim. Það er alveg rétt. Svo er talað um að á Íslandi sé kjördæmapot, en svoleiðis er líka í Noregi. Þar er endalaust verið að rífast um brýr á Vesturlandinu og allir vilja fá fjármagn til eigin fylkis.“ Munurinn á stjórnmálum í löndunum tveimur er því ekki eins mikill og margir vilja meina.

Mímir hefur nú dvalið á Íslandi í tvær vikur og segist taka eftir fjölgun ferðamanna á landinu. Segist hann sjá gríðarlega mikinn mun á miðborginni og öðrum borgarhlutum. „Mig vantaði hleðslutæki um daginn og ég fór að leita að verslun í miðbænum sem selur slíkt. En ég fann bara verslanir sem selja lundastyttur og séríslenskan mat. Ég þurfti því að fara alla leið í Kringluna til þess að kaupa hleðslutæki!

Ég hef alltaf reynt að tala íslensku þegar ég er á landinu en það gengur ekkert í miðbænum.“

Allt gert til þess að skapa störf

Aðspurður hvernig tilfinning hans sé fyrir þróuninni í íslensku samfélagi segir Mímir tvennt vekja athygli sína. „Annars vegar er það hugsunarhátturinn að það er allt gert til að skapa störf og gróða. Það sést þegar litið er á ferðaþjónustuna, hóteluppbyggingu og gjaldtöku á ferðamannastöðunum. Allt er til sölu ef það skapar einhver störf. Íslendingar gætu seinna séð eftir þessu þegar ástandið í landinu batnar, sérstaklega þegar þeir eru að selja náttúruna sína.“

„Hins vegar er það þróunin í stjórnmálunum og allir „prótest“-flokkarnir sem hafa verið stofnaðir eftir hrun. Píratar, gott gengi Vinstri grænna í kosningunum 2009, Besti flokkurinn og svo Fylkisflokkurinn. Það er nóg af slíkum flokkum og allir vilja fá að segja skoðun sína. Ég held að héðan í frá verði það sjaldgæft að sömu flokkar sitji í ríkisstjórn í meira en eitt kjörtímabil í einu. Ástandið í stjórnmálunum kom líka í ljós í Icesave-deilunni þegar ríkisstjórnin hvatti fólk til þess að kjósa ekki. Slíkt er örugglega einsdæmi á meðal lýðræðisríkja.“

Mímir stefnir á að gefa bók sína út í lok þessa árs eða í byrjun næsta árs.

Mímir Kristjánsson er hálfur Íslendingur og hálfur Norðmaður.
Mímir Kristjánsson er hálfur Íslendingur og hálfur Norðmaður. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
MIðborg Reykavíkur á sumardegi.
MIðborg Reykavíkur á sumardegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ferðamenn í miðborginni.
Ferðamenn í miðborginni. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert