Gæti verið undanfari eldgoss

Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur.
Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ljóst að það eru ekki einungis einhverjar gliðnunarhreyfingar í gangi. Það er eitthvað meira í gangi, það sem sem menn kalla kvikuhreyfingar sem eru á meira dýpi en 5-10 kílómetrar. Hvort þetta stoppar þar eða heldur áfram á eftir að koma í ljós.“

Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is vegna jarðskjálftahrinunnar sem verið hefur í gangi við Bárðarbungu í norðanverðum Vatnajökli frá því síðustu nótt. Hundruð skjálfta hafa mælst síðan hrinan hófst og hafa þeir stærstu verið í kringum þrjú stig samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi vegna jarðhræringanna í samráði við lögreglustjórana á Húsavík og Hvolsvelli. Ari bendir á að það hafi oft gerst að innskot upp í skorpu eldstöðva og skjálftavirkni hafi átt sér stað nokkrum árum áður en til eldgoss kom. Til að mynda í tilfelli Eyjafjallajökuls.

„Þannig að þetta gæti verið eitthvað slíkt. En á móti eru líka líkur á að þetta nái alla leiðina upp úr,“ segir hann. Hann segir miðjur jarðskjálftanna ekki vera í megineldstöðinni sjálfri heldur austan og norðaustan við sjálfa öskjuna sem er undir ísnum. Ef það gysi þar yrði um gjóskugos að ræða þar sem gosið yrði undir Dyngjujökli. En ef ef það yrði aðeins lengra til norðausturs yrði það úti á Dyngjuhálsi. Hann segir vel mögulegt að til eldgoss gæti komið þó ekki sé hægt að vita það með vissu á þessu stigi málsins.

„Ef þetta verður viðvarandi, og sérstaklega ef það verða stærri skjálftar, þá væri það undanfari goss og þá væri það jafnvel bara spursmál um klukkutíma. Eða jafnvel nánast byrjun á gosi,“ segir Ari Trausti ennfremur. Til að mynda ef skjálftarnir yrði á bilinu 4-4,5.

Vatnajökull. Bárðarbunga ofarlega til vinstri.
Vatnajökull. Bárðarbunga ofarlega til vinstri. Nat.is
Horft yfir norðvest­an­verðan Vatna­jök­ul þar sem Bárðarbunga er.
Horft yfir norðvest­an­verðan Vatna­jök­ul þar sem Bárðarbunga er. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert