Kosið í Seljakirkju í dag

Seljakirkja.
Seljakirkja. mbl.is/Jim Smart

Kosning sóknarprests í Seljakirkju fer fram í dag, laugardag. Valið stendur á milli þeirra Ólafs Jóhanns Borgþórssonar, sem starfað hefur sem prestur við kirkjuna, og Fritz Más Berndsen Jörgenssonar guðfræðings. Sá sem hlýtur flest atkvæði mun taka við stöðunni af séra Valgeiri Ástráðssyni sem lét af störfum fyrr í sumar.

Kosið verður í safnaðarheimili Seljakirkju og verður kjörstaður opinn frá klukkan níu til fimm síðdegis. Úrslitin verða væntanlega kunngjörð í kvöld.

Séra Hans Markús Hafsteinsson Ísaksen dró umsókn sína um stöðu sóknarprests til baka fyrr í vikunni en hann sagði að valnefnd prestakallsins hefði ítrekað brotið lög og málsmeðferðarreglur. Hann hyggst kanna það hvort ástæða sé til þess að leita réttar síns vegna málsins.

Valnefnd prestakallsins mælti með Ólafi Jóhanni, en biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, taldi sig ekki geta staðfest val nefndarinnar.

Ákveðið var að auglýsa embættið á ný og sóttu þrír um stöðuna, Hans Markús, Ólafur Jóhann og Fritz Már. Nægilega mörgum undirskriftum var safnað svo hægt væri að fara fram á kosningu.

Frétt Morgunblaðsins: Þrír umsækjendur um Seljasókn

Fréttir mbl.is: Nokkur hundruð vilja kjósa prest

Gagnrýnir valnefnd Seljakirkju

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert