Óvenjulega stöðug skjálftavirkni

Horft yfir norðvestanverðan Vatnajökul þar sem Bárðarbunga er.
Horft yfir norðvestanverðan Vatnajökul þar sem Bárðarbunga er. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það er áfram stöðug jarðskjálftavirkni á svæðinu við Bárðarbungu. Mesta virknin hefur verið austan við öskjuna og við Kistufell. Síðan urðu skjálftar um átta leytið í morgun við Kverkfjöll. Þannig að það er bara áfram virkni. En skjálftarnir eru áfram á talsverðu dýpi og ekkert komið upp á yfirborðið ennþá.“

Þetta segir Gunnar B. Guðmundsson, sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, spurður um stöðu mála við Bárðarbungu í norðanverðum Vatnajökli þar sem töluvert mikil og viðvarandi skjálftahrina hefur gengið yfir frá því klukkan þrjú aðfararnótt laugardags. Stærstu jarðskjálftarnir hafa mælst 3,5 að stærð en almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna jarðhræringanna. Ekkert bendir þó til þess enn að eldgos sé í vændum.

„Það er eins og það dragi aðeins úr þessu en síðan vex það aftur. Það er ekkert lát á skjálftavirkninni á svæðinu,“ segir Gunnar og bætir við að ekkert sé hægt að fullyrða enn um það hvort eldgoss sé að vænta. „En það er mjög óvenjulegt hvað þetta er stöðug virkni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert