Þjóðin vill hafa Þjóðkirkjuna í friði

Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur.
Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Það er óskandi að andstæðingum kirkjunnar, fólki sem tamt er að tala um mannréttindi, lýðræði og frjálslyndi, fari nú að skiljast það að íslenska þjóðin hefur Þjóðkirkju og vill fá að hafa hana áfram í friði.“ Þetta sagði sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur í predikun í Dómkirkjunni í dag. Gagnrýndi hann þá ákvörðun Ríkisútvarpsins að fella brott dagskrárliðina Morgunbæn og Orð kvöldsins.

„Skýringar útvarpsmanna á því hvernig útvarpið muni batna við brottfall bænalesturs skil ég ekki. Þjóðfélag okkar batnar ekki með minni áhrifum kristinnar trúar. Þjóðin verður ekki víðsýnni, þroskaðri, umburðarlyndari, réttlátari eða miskunnsamari við það,“ sagði Hjálmar. Hann kom einnig inn á heimsmálin. Þannig væru átök víða um heim þar sem hryllileg grimmd ætti sér stað.

„Stórfelldust er skelfingin í Vestur-Asíu. Þar er verið er með markvissum hætti að útrýma kristnu fólki og söfnuðum. Og það er nú gert í orðsins fyllstu merkingu. Lýsingar af grimmdinni, siðleysinu og villimennskunni er svo skelfilegt að orð ná ekki að lýsa því. Myndskeið ofbeldismannanna sjálfra, hermanna Islamska ríkisins,  þar sem þeir hælast um af fjöldamorðum á þúsundum, tugþúsundum og bráðum hundruðum þúsunda fólks, er allt með eindæmum á okkar tímum – og það veldur manni ógleði og ólgandi tilfinningum. Það er sárt til að hugsa hvað drápsæðið getur gengið langt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert