Áframhaldandi hræringar í Bárðarbungu

Búist er við frekari hræringum í Bárðarbungu.
Búist er við frekari hræringum í Bárðarbungu. Sigurður Bogi Sævarsson

Ekkert hefur dregið úr jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu í norðvestanverðum Vatnajökli í kvöld og búist er við áframhaldandi jarðhræringum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.

Vísindaráð almannavarna fundaði í dag og telja jarðvísindamenn á Veðurstofunni og Háskóla Íslands að kvika sé á hreyfingu austan við Bárðarbungu og við jökuljaðar Dyngjujökuls. Á fundinum kom einnig fram að leiðni í Jökulsá á Fjöllum er há miðað við það sem vant er á þessum tíma árs.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands hafa yfir 800 jarðskjálftar mæst frá miðnætti í gær. Sá stærsti var 4,5 á Richter-skala.

Enn er unnið á óvissustigi, sem þýðir að atburðarrás í Bárðarbungu er hafin, sem á síðari stigum gæti valdið hættu. Ríkislögreglustjóri fundaði í dag með forsætisráðherra, innanríkisráðherra og fulltrúum stjórnarráðsins vegna málsins, en þá hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fundað með fulltrúum utanríkisráðuneytisins og fulltrúum erlendra sendiráða á Íslandi.

Hálendisvegirnir F88 og F910 eru enn lokaðir að hluta, en lokanirnar eiga við um alla umferð, jafnt akandi sem gangandi og hjólandi. 

Hér má sjá kort um lokanir á svæðinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert