„Heppilega höfðum við betur“

Frá brunanum í dag
Frá brunanum í dag Ljósmynd/Sigurður Grímsson

„Við urðum varir við reyk sem steig upp þar sem við vorum að störfum hinum megin í skólanum. Við komum svo réttu megin að eldinum og réðumst gegn honum með brunaslöngum,“ segir Pétur Jökull Hákonarson sem ásamt Inga Svani Línberg Sveinssyni réð niðurlögum eldsins í Varmárskóla í dag. 

„Við réðumst gegn eldinum með brunaslöngu, fyrst ég og svo kom Ingi og hjálpaði. Heppilega höfðum við betur,“ segir Pétur.

Hann segir hitann hafa verið mikinn þegar þeir komu að eldinum. Pétur og Ingi unnu að viðhaldi við skólann þegar eldurinn kom upp. „Við erum með lykla að öllum skólanum og við gengum í gegnum hann og komum réttu megin að honum. Eldurinn var búinn að sprengja glerið á hurðunum inn í skólann og múrinn var farinn að flagna af veggjunum. Við hugleiddum hvort við ættum ekki bara að koma okkur undan, en við ákváðum að reyna að slökkva hann frekar. Ætli það hafi ekki bara verið íslenska þrjóskan að verki,“ segir Pétur. 

Fyrir innan dyrnar voru pappa- og plastkassar sem eldurinn var við það að komast í. „Skólinn hefði getað orðið alelda á svipsstundu ef eldurinn hefði komist í gegn.“

Sjá frétt mbl.is: Starfsmenn sáu um slökkvistörf

Ljósmynd/Sigurður Grímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert