„Þetta er óútreiknanlegt“

Vatnajökull.
Vatnajökull. mbl.is/RAX

„Við höfum numið um 350 jarðskjálfta frá miðnætti. Sá stærsti var í kringum 3,8-3,9 að stærð en verið er að fara betur yfir upplýsingar um hann. Hann varð í þyrpingu norður af Bárðarbungu en mesta virknin er núna austur af Bárðarbungu.“

Þetta segir Martin Hensch, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Hann segir ástandið vera stöðugt. Stundum aukist skjálftarnir og stundum minnki þeir. „Þannig að það er langur vegur frá því að við getum sagt eitthvað til um það hvenær þessu lýkur. Það eru enn sem komið er engin merki um að kvika sé á leiðinni upp á yfirborðið. Líkurnar á elgosi eru frekar litlar en þær eru engu að síður til staðar.“

Martin segir erfitt að segja til um hver þróun mála verði. Ef jarðskjálftarnir færðust nær yfirborðinu væri það klárlega til marks um að eitthvað væri að fara að gerast eða ef vart yrði við gosóróa undir Vatnajökli. „Það er ekki raunin enn sem komið er en þetta er óútreiknanlegt.“

Hann segir að ástandið hafi verið rólegra frá því um klukkan sjö í morgun en það sé ekki hægt að fullyrða að það bendi til þess að farið sé að draga úr virkninni enda hafi sambærilegt tímabil átt sér stað í gær en virknin síðan aukist aftur. „Staðan er í raun óbreytt frá í gær. Við þurfum einfaldlega að fylgjast náið með þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert