Beindi leikfangabyssu að fólki

mbl.is/Eggert

Tilkynning barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um klukkan hálf-tíu í gærkvöldi um karlmann sem væri að veifa skammbyssu út um glugga bifreiðar og beina henni að fólki. Bifreiðin var þá stödd á Vesturlandsvegi við Grafarholt í Reykjavík. Bifreiðin var stöðvuð skömmu síðar á Eiðsgranda við JL-húsið og reyndist byssan vera leikfang. Ökumaður bifreiðarinnar var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og voru farþegar einnig í annarlegu ástandi.

Skömmu síðar, um klukkan 22:20, voru afskipti höfð af karlmanni á heimili í miðbæ Reykjavíkur en maðurinn er grunaður um ræktun fíkniefna og voru plönturnar gerðar upptækar. Málið er í rannsókn. Einnig voru höfð afskipti af þremur karlmönnum vegna aksturs undir áhrifum og einum vegna vörslu á fíkniefnum. 

Þá var tilkynnt um innbrot í heimahús í Kópavogi um klukkan hálf-þrjú í nótt. Húsráðendur voru ekki heima. Gluggi var spenntur upp og farið inn í húsið. Ekki liggur fyrir hvort einhverju var stolið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert