„Ég drep þig og börnin þín í nótt“

Skilaboðin voru send á lögregluþjóna í Reykjavík á sunnudagskvöld.
Skilaboðin voru send á lögregluþjóna í Reykjavík á sunnudagskvöld. Ljósmynd/Skjáskot

Algengt er að lögregluþjónar hér á landi verði fyrir hótunum í tengslum við starf sitt. Sem dæmi má nefna eftirfarandi skilaboð, sem send voru með tölvupósti á nokkra lögregluþjóna í Reykjavík á sunnudaginn: „Ég drep þig og börnin þín í nótt.“ Einn lögregluþjónanna sem fékk skilaboðin send segir hótanir sem þessar vera hluta af starfinu.

„Þetta er eitthvað sem við lifum við,“ segir lögregluþjónninn, sem vill ekki koma fram undir nafni. „Þetta kemur öðru hvoru fyrir og þá sérstaklega hjá yngri lögregluþjónum sem starfa úti á götu. Það er minna þegar menn eru komnir inn fyrir veggina, ef svo má segja,“ segir hann.

Hann telur hótunina ekki beinast gegn sjálfum sér persónulega, þar sem hún var einnig send á aðra í lögreglunni. „Þetta er bara einhver sem hatast við lögregluna sem slíka. Þetta er í flestum tilvikum lasið fólk sem sendir svona,“ segir lögregluþjónninn.

Aðspurður um áhrif sem hótanir sem þessar kunni að hafa á fjölskylduna svarar hann: „Ef þú ert vanur einhverju í gegnum tíðina, ekkert bara núna heldur alveg síðan ég byrjaði í þessu starfi, þá er þetta eitthvað sem maður lifir við vegna þess að þetta er hluti af starfinu. Þú þarft mjög fljótlega að koma þér upp þykkum skráp.“

70% lögreglumanna hafa orðið fyrir hótunum við vinnu

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna segir algengt að lögregluþjónar verði fyrir hótunum í starfi. Hann bendir á niðurstöður könnunar sem birtust í skýrslu embættis ríkislögreglustjóra árið 2007, en könnunin var gerð tveimur árum áður. Niðurstöðurnar byggðust á svörum 347 lögreglumanna, sem voru 61% starfandi lögreglumanna á þeim tíma.

Þar kom fram að um 70% lögreglumanna höfðu orðið fyrir hótunum í vinnu og 26% utan vinnutíma vegna starfs síns. Um 43% lögreglumanna höfðu orðið fyrir ofbeldi án þess að hljóta meiðsli af í vinnu og 7% utan vinnutíma. 

Um 40% lögreglumanna höfðu orðið fyrir ofbeldi í starfi og 3% utan vinnutíma. Þá höfðu um 15% lögreglumanna orðið fyrir ofbeldi sem leiddi til stórvægilegra eymsla við störf sín og 2% utan vinnutíma. Um 4% lögreglumanna höfðu orðið fyrir ofbeldi sem leiddi til alvarlegra áverka, svo sem beinbrota eða höfuðáverka, í vinnu sinni og 1% utan vinnutíma.

Loks hafði um 1% lögreglumanna orðið fyrir ofbeldi sem leiddi til líkamlegrar fötlunar í vinnu en enginn hafði orðið fyrir svo alvarlegu ofbeldi utan hennar.

Þegar talað er um ofbeldi eða hótanir utan vinnu í könnuninni er þó átt við tilvik sem tengjast starfinu á einn eða annan hátt. 

Árás á þá þjóðfélagsuppbyggingu sem er hér við lýði

„Þetta er og hefur verið hluti af starfinu, því miður, en á náttúrulega engan veginn að vera þannig. Staðreynd málsins er sú að árás með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi gagnvart lögregluþjóni er ekkert annað en árás á þá þjóðfélagsuppbyggingu sem er hér við lýði. 

Það er ekkert öðruvísi því lögreglumenn eru handhafar ákveðins valds sem er ákveðið af Alþingi til að halda uppi lögum og reglum, stemma stigu við afbrotum og svo framvegis. Lögreglumenn eru í reynd að framfylgja vilja löggjafans hverju sinni,“ segir Snorri.

„Lögreglan hefur afskipti af einstaklingum í alls kyns ástandi og oft í versta mögulega ástandi sem hugsast getur fyrir viðkomandi einstakling. En það er orðið allt of mikið um þetta,“ bætir Snorri við.

Hann tengir hótanirnar ekki við einn afbrotahóp frekar en annan. „Hótanirnar geta komið fram í alls konar formi. Ég man eftir hótunum sem ég hef fengið þegar maður hefur afskipti af einstaklingum vegna venjulegs umferðarlagabrots. Það næsta sem maður heyrir er að einstaklingurinn ætlar að sjá til þess að maður missi atvinnuna. Maður lætur þetta bara sem vind um eyru þjóta, en þetta er hótun eigi að síður,“ segir Snorri og bætir við að enn alvarlegra sé þegar lögregluþjónar fá tölvupósta eða, eins og nú gerist æ oftar, fái hótanir í gegnum Facebook-skilaboð.

Alvarleika brotanna ekki gefinn nægur gaumur að mati lögreglumanna

Landssamband lögreglumanna hefur verið gagnrýnið á fulltrúa ákæruvaldsins þegar kemur að hótunum í garð lögreglumanna. „Við teljum að alvarleiki þessara brota hafi ekki verið gefinn nægilegur gaumur.

Fyrir nokkrum árum gerði löggjafinn ákveðnar breytingar á almennum hegningarlögum sem miðuðu að því að auka refsirammann þegar kemur að brotum gegn starfsmönnum ríkisins sem hafa valdbeitingarheimild. Ramminn var aukinn talsvert en við höfum hins vegar ekki talið okkur sjá það í dæmdum málum sem varða sönnuð brot gegn lögreglumönnum,“ segir Snorri.

„Lögreglumenn taka þessum hótunum alvarlega og sérstaklega þegar þær eru farnar að beinast að mökum okkar og börnum, þá situr þetta í manni,“ segir Snorri.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri segir að lögreglumenn verði stöku sinnum fyrir hótunum við …
Snorri segir að lögreglumenn verði stöku sinnum fyrir hótunum við umferðareftirlit. Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert