Mikill áhugi erlendra vísindamanna

Hér er horft til norðurs eftir Bárðarbungu úr þyrlu í …
Hér er horft til norðurs eftir Bárðarbungu úr þyrlu í gær, 18. ágúst. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er mjög mikill alþjóðlegur áhugi á þessum eldfjöllum og mikið samstarf um lán á mælitækjum til vöktunar,“ segir Kristín Jónsdóttir fagstjóri jarðvár hjá Veðustofu Íslands. Erlendir vísindamenn eru í startholunum að koma til Íslands vegna Bárðabungu.

Virkni er enn mjög mikil en hefur ekki aukist. Veðurstofan hefur aukið mjög mælingar á svæðinu umhverfis Bárðarbungu og til stendur að fjölga mælitækjum enn frekar í kvöld eða á morgun, bæði jarðskjálftamælitæki og GPS. Þá er veðurstofan í nánu samstarfi vð vísindamenn við við háskólana í Cambridge í Bretlandi og Düsseldorf í Þýskalandi, sem hugsanlegt er að komi einnig til landsins með frekari tækjabúnað.

Allar sviðsmyndir skoðaðar

Vísindaráð almannavarna fundaði í dag um stöðu mála. Viðbúnaðarstigi fyrir flugmálayfirvöld var ekki breytt, en það var í gær hækkað upp í appelsínugult. Áður auglýstar lokanir á vegum norðan Vatnajökuls eru sömuleiðis enn í gildi og eiga við um alla umferð á svæðinu, jafnt akandi sem gangandi.

„Sviðsmyndirnar í stöðunni eru þær að þetta haldi áfram þangað til það verður gos eða þá að þetta fjari út og það verði ekkert gos. Það er alls ekkert víst að það gjósi, en við verðum að búa okkur undir það samt sem áður,“ segir Kristín.

Viðbúnaðurinn miðast því við að vera við öllu búinn. Í ljósi þessa er enn unnið að því að skoða allar mögulegar útgáfur af því hvað gæti gerst komi skyndilega til goss, þ.á.m. möguleg áhrif hlaups í Jökulsá á Fjöllum.

„Svakalega mikil virkni“

Hræringarnar í Bárðarbungu eru í raun svipaðar og í gær, virknin heldur áfram án þess að úr henni dragi en hinsvegar hefur enginn skjálfti farið yfir 3 stig í meira en sólarhring, og kvikuhreyfingarnar hafa færst til norðausturs. Kvikuhreyfingarnar voru áður á tveimur stöðum en nú hefur dregið mjög sunnanverðu þyrpingunni svo það virknin er nú fyrst og fremst undir Dyngjujökli, að sögn Kristínar.

Þá staðfesta GPS mælingar sprungur í bungunni eru að gliðna vegna kvikuinnstreymis. Aðspurð segir Kristín hinsvegar ekki sjást nein skýr merki um að kvikan sé að fara upp á við í átt að jarðskorpunni, jarðskjálftarnir eru flestir á 5-10 km dýpi. „Við fylgjumst mjög vel með því og förum yfir skjálftana jafnóðum eins og við getum, en þetta er alveg svakalega mikil virkni.“

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að aðdragandi eldgoss yrði með þeim hætti að skjálftarnir færðust nær yfirborðinu en þegar skjálftaóróinn væri orðinn samfelldur og skjálftunum fækkaði væri það merki um að gos væri hafið undir jökli.

Vísindamenn eru á einu máli um að óvissan sem nú ríkir gæti varað einhverja daga til viðbótar. 

Lokanir á vegum norðan Vatnajökuls eru enn í gildi vegna …
Lokanir á vegum norðan Vatnajökuls eru enn í gildi vegna jarðskjálfta í Bárðarbungu, bæði fyrir akandi og gangandi. mbl.is/Elín Esther
Svona litu skjálftahreyfingarnar í Bárðarbungu út kl. 10 í morgun.
Svona litu skjálftahreyfingarnar í Bárðarbungu út kl. 10 í morgun. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert