Vilja skrá skipin á Íslandi

Lagarfoss, nýtt skip Eimskipafélags Íslands, kom til Reykjavíkur í fyrsta …
Lagarfoss, nýtt skip Eimskipafélags Íslands, kom til Reykjavíkur í fyrsta sinn á sunnudaginn. Skipið er ekki skráð á Íslandi heldur á Antígva í Karíbahafi. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var alveg sorglegt að geta ekki siglt nýju skipi til Íslands undir íslenskum fána vegna þess að umhverfið hér á landi sé ekki vinveitt skráningu kaupskipa. En verði reglunum hér á landi breytt og gerðar samkeppnishæfar við þau lönd þar sem 90% af öllum kaupskipum í heiminum eru skráð í þá myndi Eimskipafélagið stolt flagga íslenska fánanum á skipum sínum. Alveg klárlega.“

Þetta segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskipafélags Íslands, í samtali við mbl.is. Nýtt skip félagsins, Lagarfoss, kom til landsins á sunnudag en skipið er ekki skráð hér á landi heldur á Antígva og Barbúda í Karíbahafi. Skip Samskipa eru hins vegar skráð í Færeyjum. Ástæða er sú að lagaumhverfið hér á landi er ekki samkeppnishæft í þessum efnum. Sömu svör fást frá Samskipum. Mikill áhugi væri á því að skrá sig félagsins hér á landi ef aðstæður hér á landi yrðu samkeppnishæfar.

Ekki er hins vegar nóg með að skipin teljist formlega ekki íslensk þar sem þau eru skráð erlendis þó útgerðaraðilarnir séu íslensk fyrirtæki heldur þýðir það að íslenska ríkið verður af miklum skatttekjum. Bæði þegar kemur að tekjuskatti og opinberum gjöldum af skipunum. Samkeppnishæfni Færeyja í þessu sambandi felst einkum í skattalegum ívilnunum til handa útgerðum kaupskipa. Þannig er stærstur hluti tekjuskatts endurgreiddur og lágt gjald á hvert skip. Eftir sem áður verða talsverðar skatttekjur eftir í landinu sem annars væru engar. Þess utan njóta einkaaðilar góðs af ýmissi hliðarstarfsemi sem fylgir skráningu skipanna.

Reglur frá Evrópusambandinu eru hindrun

Fjallað var ítarlega um málið í Morgunblaðinu fyrir ekki alls löngu. Þar kom meðal annars fram að Færeyingar gætu boðið upp á umrædd kjör að hluta til vegna þess að þeir væru hvorki í Evrópusambandinu né aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Alþjóðleg skipaskrá Íslands hefði verið sett á laggirnar með lögum árið 2007 til þess að gera íslenskum útgerðum mögulegt að skrá kaupskip sín hér á landi þar sem ætlunin hafi verið að bjóða upp á kjör sambærileg við þau lönd þar sem þau væru samkeppnishæfust. Það hafi hins vegar orðið að engu eftir að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulagið fæli í sér ríkisstuðning sem færi gegn reglum Evrópusambandsins.

„Það hefur alla tíð verið áhugi á því hjá Eimskipafélaginu að skrá skip félagsins á Íslandi. Félagið hefur þrýst á það í mörg ár að af stað færi vinna til þess að gera það mögulegt. Það sem stendur í vegi fyrir því og gerir það að verkum að við óttumst að það sé of seint er sú staðreynd að Ísland hefur samþykkt evrópskar reglugerðir sem þýðir að við getum í raun ekki breytt reglunum okkar hérna nema að brjóta í bága við þær. Það er einfaldlega ástæðan fyrir því að skip eru skráð annars staðar. Við erum til dæmis að skoða Færeyjar en þeir hafa aðlagað sínar reglur að þeim stöðum þar sem þær eru samkeppnishæfastar,“ segir Ólafur.

Framan af hafi umræðan um skráningu íslenskra kaupskipa hér á landi snúist um það hvernig þau væru mönnuð. Hvort áhafnirnar væru Íslendingar eða ekki. „En núna snýst þetta einkum um þessar Evrópureglur og við erum bara orðin ansi tengd Evrópusambandinu varðandi alls kyns regluverk sem er í raun ekkert hagstætt fyrir okkur sem sjómannaþjóð,“ segir hann. Hann bendir á að útgerð kaupskipa sé gjörólík til að mynda útgerð fiskiskipa sem þurfa að vera skráð í ákveðnum löndum til þess meðal annars að fá úthlutað aflaheimildum. Kaupskip geti í raun verið skráð hvar sem er.

Stjórnvöld ætla að taka málið til skoðunar

„Það er óásættanlegt að hjá siglingaþjóðinni Íslandi sé ekki samkeppnishæf og öflug alþjóðleg skipaskrá. Öllum árum verður að róa að því að fá skipin skráð heim,“ var haft eftir Bjarna Benediktssyni, núverandi fjármálaráðherra, á mbl.is fyrir réttum tveimur árum þegar hann var í stjórnarandstöðu. Tilefnið var áðurnefnd frétt Morgunblaðsins um að Ísland væri ekki samkeppnishæft gagnvart Færeyjum þegar kæmi að skráningu kaupskipa. Sagði hann að með skráningu skipanna hér á landi væri hægt að skapa fjölda verðmætra starfa í ýmsum greinum.

„Fréttir af stöðu kaupskipaútgerðar á Íslandi eru góð áminning um það sem gerist þegar rekstrarumhverfi einstakra atvinnugreina stenst ekki samanburð við önnur lönd,“ sagði Bjarni ennfremur og bætti við að því miður hafi lagasetning í þeim efnum komið til allt of seint eða eftir að öll kaupskip voru farin úr landinu. „Það er sárgrætilegt að rifja þá sögu upp. Nú sjáum við jafnframt að lögin duga ekki til að laða útgerðirnar aftur heim. Við þessu verður að bregðast með því að ganga lengra. Ríkissjóður hefur allt að vinna. Skatttekjurnar í dag eru engar.“

Fjármálaráðuneytið hefur nú ákveðið að setja á stofn starfshóp sem hefur það hlutverk að kanna hvort unnt sé að útfæra lagaumhverfi í kringum skráningu kaupskipa á Íslandi þannig að landið verði samkeppnishæft á alþjóðavettvangi á sviði kaupskiptaútgerðar. Umræddur starfshópur hefur ekki fundað en formaður hans er Rakel Jensdóttir frá fjármálaráðuneytinu. Þetta kemur fram svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn frá mbl.is. Þá segir ennfremur að málið hafi verið til umfjöllunar í stjórnarráðinu upp á síðkastið. 

Ekkert skip í Alþjóðlegri skipaskrá Íslands

Eins og staðan er í dag er ekkert skip skráð í Alþjóðlega skipaskrá Íslands samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu en sú var einnig raunin fyrir tveimur árum síðan. Að sama skapi eru engin skip skráð í aðalskipaskrá landsins sem kaupskip. Þó er eitt skip skráð þar sem vöruflutningaskip. Hins vegar kom fram í fyrrnefndri umfjöllun Morgunblaðsins að um eitt hundrað skip hafi verið skráð í alþjóðlega skipaskrá Færeyja þegar hún var rituð. Þá væri ótalinn sá fjöldi skipa sem nýtti sér skattaívilnanir sem kaupskipaútgerðum stæði til boða í Færeyjum óháð því hvort skip þeirra væru skráð þar eða ekki. Það er því ljóst að verulegir hagsmunir eru í húfi.

Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert