40.000 börn að hefja skólaárið

Grunnskólarnir byrja brátt aftur eftir sumarfrí.
Grunnskólarnir byrja brátt aftur eftir sumarfrí. mbl.is/Jim Smart

Grunnskólar verða víðast hvar settir í vikunni. Um fjörutíu þúsund börn hefja þá skólaárið í grunnskólum landsins. Fjöldi barna er að stíga sín fyrstu skref í umferðinni og vill Samgöngustofa brýna fyrir fólki að kenna börnum á umferðina. 

Barn sem er að byrja í skóla hefur ekki þroska eða reynslu til að átta sig á því sem skiptir máli að gefa gaum í umferðinni. Brýnum fyrir börnum að þó að þau sjái bíl þá sé ekki öruggt að bílstjórinn sjái þau,“ segir í tilkynningu frá Umferðarstofu.

Höfum í huga að við erum fyrirmyndir barnsins. Hvernig hegðum við okkur í umferðinni? Barnið lærir meira af því sem við gerum en því sem við segjum. Munum því að;  ganga aldrei á móti rauðu ljósi, nota alltaf viðeigandi öryggisbúnað, t.d. öryggisbelti, hjólreiðahjálma og endurskinsmerki.

Þá er mikilvægt að ökumenn taki sérstakt tillit til þessara nýju vegfarenda og virði hraðatakmörk í kringum grunnskóla. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun á næstu dögum vera með sérstakt eftirlit í kringum grunnskóla. Þar sem keyra verður börn í skólann er nauðsynlegt að huga að því hvar þeim er hleypt út úr bílnum, og að það sé ekki gert þar sem hætta geti skapast.“

Umferðarstofa gefur eftirfarandi 10 ráð sem mikilvægt sé að forráðamenn hafi í huga og fræði börn sín um:

1.      Æfum leiðina í og úr skóla með barninu.
2.      Veljum öruggustu leiðina í skólann - ekki endilega stystu.
3.      Leggjum tímanlega af stað,  (flýtum okkur ekki).
4.      Setjum einfaldar og fáar reglur sem barnið á að fara eftir.
5.      Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar.
6.      Verum sýnileg, notum endurskinsmerki.
7.      Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir.
8.      Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið, bæði börn og fullorðnir.
9.      Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla.
10. Förum eftir leiðbeiningum skólans um umferð á skólasvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert