Bárðarbunga enn í erlendum miðlum

Frá Bárðarbungu í gær.
Frá Bárðarbungu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Erlendir fjölmiðlar hafa sýnt jarðhræringum í Bárðarbungu töluverðan áhuga, eins og við er að búast. 

Bandaríski fréttaskýringavefurinn Vox skrifar ítarlegu um atburðarásina, og veltir upp hvort líkur séu á gosi, sérstaklega sprengigosi í líkingu við það sem varð þegar Eyjafjallajökull gaus. 

Vikuritið Nature bendir á að minni líkur en meiri séu á því að gos í Bárðarbungu hefði sömu afleiðingar á flugsamgöngur og áðurnefnt gos í Eyjafjallajökli höfðu.  

Vefsíðan Smithsonian fjallar einnig um málið, og segir Bárðarbungu í raun ekki hafa gosið síðan 1794. Þar gæti því leynst mikill kraftur. 

Þá fjallar Slate um að íslensk yfirvöld séu í viðbragðsstöðu, og vekja athygli á þeim vefmyndavélum sem hefur verið komið fyrir við Bárðarbungu. 

Deutsche Welle veltir upp þeim möguleika hvort Evrópa verði fyrr en síðar undir öðru öskuskýi. Af þessu er ljóst að fólki er enn í fersku minni þær hremmingar sem gosið í Eyjafjallajökli hafði í för með sér.

Til gamans má geta að erlendir fjölmiðlamenn virðast einnig muna ágætlega eftir risavaxna tungubrjótnum E15, eins og Bandaríkjaher kallaði Eyjafjallajökul, því framburðarráðleggingar mbl.is hafa ratað inn í umfjöllun nokkurra erlendra miðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert