Finna kynferðisbrotamálum farveg

Skipuleggjendur Druslugöngunnar sendu póst á alla þingmenn og hvöttu þá …
Skipuleggjendur Druslugöngunnar sendu póst á alla þingmenn og hvöttu þá til aðgerða. mbl.is/Árni Sæberg

Úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum barna, eru komin í farveg samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins sem því barst í síðasta mánuði. Spurst var fyrir um stöðu tillagna sem settar voru fram í skýrslu samráðshóps frá apríl 2103, en skipuleggjendur Druslugöngunnar höfðu vakið athygli á skýrslunni í bréfi sem þeir sendu öllum þingmönnum í aðdraganda göngunnar.

Bréfið sem skipuleggjendur Druslugöngunnar sendu var eins konar ákall til þingmanna þar sem biðlað var til þeirra að finna kynferðisafbrotamálum farveg innan Alþingis og sjá til þess að raunverulegar úrbætur ættu sér stað í málaflokknum.

Í bréfinu var bent á fyrrnefnda skýrslu sem gefin var út þann 5. apríl 2013 af forsætisráðuneytinu undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Skýrslan var unnin af Samráðshópi forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum barna. Hópurinn tók saman 27 tillögur til breytinga og bóta á kerfinu og vildu skipuleggjendur göngunnar með bréfinu sjá til þess að þessum tillögum yrði fundinn farvegur og þeim fylgt eftir.

Mál Barnahúss í farvegi

Í svarinu frá ráðuneytinu kemur fram að tveir nýir sérfræðingar hafi verið ráðnir til starfa hjá Barnahúsi til að sinna rannsóknaviðtölum, greiningu og meðferð og hófu þeir störf fyrr á árinu. Þá kemur fram að nýtt hús sem keypt hafi verið fyrir starfsemi Barnahúss fullnægi þeim kröfum sem settar eru fram í skýrslunni hvað varðar barnvinsamlegt umhverfi svo koma megi á trúnaði við börnin og aðstandendur, með fullnægjandi móttökurými og aðstöðu til læknisskoðunar, skýrslutöku og fleiru.

Húsið, þar sem starfsemi Barnaverndarstofu var áætluð að færi fram, var keypt í nóvember á síðasta ári og átti starfsemin að færast þangað í ársbyrjun. Miklar tafir hafa þó orðið á framkvæmdunum, en þær má rekja til andstöðu nágranna sem að því er virðist kærir sig ekki um starfsemi stofnunarinnar í götunni. „Þetta stendur þannig að við bíðum eftir afgreiðslu málsins við skipulagsráð borgarinnar,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.

Í fyrrnefndri skýrslu er einnig fjallað um læknisskoðanir í Barnahúsi og verkaskiptingu við neyðarmóttöku. Samkvæmt svarinu frá forsætisráðuneytinu eru þessi mál nú þegar komin í betri farveg, en ráðuneytið mun í samstarfi við Landspítala og Barnaverndarstofu kanna hvort þörf sé á að skýra betur skyldur Landspítala um framkvæmd læknisskoðana í Barnahúsi og verkaskiptingu við neyðarmóttöku.

Félagasamtökum veittir styrkir

Þá veitti velferðarráðuneytið þremur félagasamtökum, sem veita brotaþolum ofbeldis þjónustu, samtals 5 milljónir króna sem skipt var jafnt milli þeirra á árinu 2013. Þetta voru félagasamtökin Sólstafir á Ísafirði, Aflið á Akureyri og Drekaslóð, sem öll sinna þjónustu við þolendur kynferðisbrota. Ein af tillögum samráðshópsins var að auka stuðning við félagasamtök sem sinna þjónustu við brotaþola og voru hverjum samtökum fyrir sig veittar 1.660.000 króna í styrk.

„Að lokum er rétt að geta þess í tengslum við fyrstu tillögu skýrslunnar, sem lýtur að landssamráði barnaverndaryfirvalda, lögreglu og ákæruvalds, að samstarfsyfirlýsing félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og menntamálaráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess hefur verið í undirbúningi í ráðuneytunum og mun hún renna stoðum undir þetta mikilvæga samstarf,“ segir í lok bréfsins frá forsætisráðuneytinu.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu eru mál þolenda kynferðisbrota, einkum barna, …
Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu eru mál þolenda kynferðisbrota, einkum barna, komin í farveg. mbl.is/Hjörtur
Starfsemi Barnahúss kemur til með að aukast með nýju húsnæði …
Starfsemi Barnahúss kemur til með að aukast með nýju húsnæði stofnunarinnar. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert