Vonarstræti keppir til verðlauna

Baldvin Z, leikstjóri Vonarstrætis.
Baldvin Z, leikstjóri Vonarstrætis. Ómar Óskarsson

„Ég er alveg í skýjunum og gæti ekki verið glaðari,“ segir Baldvin Z, leikstjóri kvikmyndarinnar Vonarstræti, en hún var nýverið valin til sýningar á kvikmyndahátíðinni Toronto International Film Festival (TIFF). Hátíðin, sem er ein stærsta kvikmyndahátíð heims, fer fram í september næstkomandi og mun myndin keppa til verðlauna í tveimur flokkum. Tvær aðrar íslenskar kvikmyndir og ein finnsk/​ís­lensk minni­hlutameðfram­leiðsla voru einnig valdar til þátttöku á hátíðinni, en það voru stutt­mynd­in Sjö bát­ar eft­ir Hlyn Pálma­son, stutt­mynd­in Tvíliðal­eik­ur eft­ir Nönnu Krist­ínu Magnús­dótt­ur og The Grump eft­ir Dome Kar­u­koski.

Draumurinn að opna á stórri hátíð

Vonarstræti var valin til að taka þátt á TIFF af skipuleggjendum hátíðarinnar, en útsendarar á hennar vegum fara um allan heim, horfa á myndir og velja þær bestu. „Það er maður frá hátíðinni sem sér um alla Skandinavíu og hann kemur hingað til lands einu sinni á ári til að kynna sér íslensku myndirnar. Þær eru alltaf í samkeppni við allar hinar Skandinavísku myndirnar svo maður er ekkert svakalega vongóður að komast inn,“ segir Baldvin, en bætir við að hann hafi þó alltaf haldið í vonina. Hann segir það hafa verið mikinn létti þegar í ljós kom að myndin komst inn á hátíðina, enda hafi verið lögð mikil áhersla á að hún yrði tilbúin fyrir þessa hátíð. „Manni langar alltaf að opna á stórri hátíð. Það er alltaf draumurinn,“ segir hann.

Á möguleika á stórum verðlaunum

Auk þess að keppa um verðlaun sem besta myndin mun Vonarstræti koma til greina til svokallaðra Discovery verðlauna. Þau verðlaun eru veitt upprennandi leikstjórum sem þykja skara framúr á sínu sviði. Discovery verðlaunin vekja iðulega mikla athygli á hátíðinni og hafa heimtur úr þessum flokki verið miklar innan kvikmyndageirans. Vonarstræti mun einnig eiga möguleika á að vinna sérstök áhorfendaverðlaun á TIFF, en gestir hátíðarinnar fá að kjósa sitt eftirlæti. Þær kvikmyndir sem þessi verðlaun hafa hlotið hafa átt gríðarlega góðu gengi að fagna á heimsvísu, farið á allra stærstu kvikmyndahátíðir heims og unnið fjölda verðlauna, samkvæmt upplýsingum frá Senu.

Baldvin segir fleiri hátíðir framundan, en framleiðendur myndarinnar gerðu samning við fyrirtækið Films Boutique um kynningu á myndinni til kvikmyndahátíða. „Films Boutique eru mjög stór og öflug í því svo það eru fullt af hátíðum framundan,“ segir Baldvin vongóður um framhaldið.

Þorvaldur Davíð, Hera Hilmarsdóttir og Þorsteinn Backmann fara með aðalhlutverkin …
Þorvaldur Davíð, Hera Hilmarsdóttir og Þorsteinn Backmann fara með aðalhlutverkin í Vonarstræti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert