Kettlingadeildin er þétt skipuð

Það er ekki laust við að hjartað bráðni örlítið þegar gengið er inn á kettlingadeild Kattholts. Þar er tekið á móti manninum með sætu mjálmi og öðrum almennum krúttheitum sem kisur kunna aðeins lagið á. Kettlingadeildin er þétt skipuð núna enda sumarið annatími í Kattholti. 

„Á þessum árstíma er alltaf mikið af kettlingum. Læðurnar gjóta að vori og kettlingarnir fá að vera hjá þeim á meðan lítið fer fyrir þeim en um leið og þeir verða fyrirferðarmeiri er þeim hent út. Þetta eru allt heimiliskettlingar sem hafa alist upp með fólki,“ segir Halldóra Snorradóttir starfsmaður Kattholts. En kettlingarnir byrja að koma til þeirra í maí og svo fá þau stálpaða kettlinga í september.

Í gær voru 20 kettlingar og 40 kettir í Kattholti. Lítið fer út af köttum yfir sumartímann, enda fólk þá á ferð og flugi, en um leið og fer að hausta týnast kettirnir hraðar út og fá inn á heimili. Því miður þarf alltaf að lóga um 1/3 þeirra 700 til 800 katta sem koma í Kattholt ár hvert því ekki eru til heimili fyrir alla þessa ketti.

Nokkrir þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn ætla að hlaupa til styrktar Kattholti og hvetur Halldóra alla kattavini til að senda áheit á þá til að styrkja starfsemina í Kattholti. „Þá er hægt að gerast félagi í Kattavinafélagi Íslands og greiða 3000 kr. árgjald sem rennur til Kattholts,“ segir Halldóra.

Kattholt er með vefsíðuna kattholt.is og einnig má finna Kattholt á Facebook.

Meira má lesa um Kattholt í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert