Kvikan færist um einn kílómetra á dag

Jarðskjálftar, ásamt hreyfingum á GPS stöðvum, sýna að kvika hefur …
Jarðskjálftar, ásamt hreyfingum á GPS stöðvum, sýna að kvika hefur verið að ferðast til norðausturs frá Bárðarbungu á um 5-10 km dýpi í jarðskorpunni að sögn Jarðvísindastofnunar HÍ. mbl.is/Árni Sæberg

Yfir 700 jarðskjálftar hafa mælst í norðanverðum Vatnajökli frá miðnætti. Ekkert lát virðist vera á skjálftavirkninni en mikið magn kviku færist um það bil einn kílómetra til norðausturs á dag segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Við erum með mismunandi mælingar sem eru að gefa okkur mismunandi skorður á hlutina. Það er mjög mikilvægt að við séum að samtúlka mismunandi mælingar. Þannig geta t.d. jarðskjálftarnir sagt okkur mjög vel - á kortinu - hvert virknin er að færast,“ segir Kristín en bætir við að flóknara sé að reikna út dýpið, því svæði sé mjög erfitt. Hins vegar er að talið að kvikan sé á bilinu 5-10 km dýpi.

„Öll módel virka illa í svona eldfjalli - það ægir öllu saman. Það er mjög erfitt að reikna út nákvæmlega hvar skjálftinn er en sérstaklega hvar dýpið er. En mér sýnist nú samt kerfið og þessir yfirförnu skjálftar gefa okkur ansi góðar niðurstöður,“ segir hún ennfremur. 

Töluvert magn af kviku á ferð

„Við vitum þá nokkurn veginn hvar þetta er. Þetta er undir Dyngjujökli og virðist vera færast um það bil um einn kílómetra á dag til norðausturs í skorpunni undir Dyngjujökli. Það sem GPS-mælingarnar bæta við er að segja okkur eitthvað til um það hversu mikil kvika er á ferðinni, en það eru mjög fáar mælingar þannig að það er mjög gróflega áætlað. En við getum sagt að það virðist vera töluvert magn af kviku þarna á ferð,“ segir Kristín.

Aðspurð segir Kristín að vísindamenn læri ávallt mikið af svona atburðum. „Ef við miðum við síðasta gos, Grímsvatnagosið 2011, þá erum við að nýta gögnin okkar miklu betur af því að við getum dregið út miklu meiri upplýsingar úr þeim. Þetta er alltaf að batna,“ segir Kristín en tekur fram að það megi ávallt bæta sig. 

TF-SIF á flugi yfir jöklinum

Fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar, að flugvél LHG, TF-SIF, hafi farið í loftið um kl. 13 með hóp vísindamanna um borð. Markmið flugsins er að safna gögnum með ratsjár- og eftirlitsbúnaði flugvélarinnar og er vonast til að flugið skili niðurstöðum sem hægt verður að nota til að meta enn frekar aðstæður á svæðinu.

Einnig er gert ráð fyrir að fljúga um svæðið til að rannsaka hvort ferðamenn séu ennþá innan svæðisins en í gær ákváðu lögreglustjórarnir á Húsavík og Seyðisfirði að loka og rýma hálendið norðan Dyngjujökuls vegna jarðhræringanna í kring um Bárðarbungu undanfarna daga.

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, á fundi vísindaráðs …
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, á fundi vísindaráðs almannavarna vegna Bárðarbungu. mbl.is/Styrmir Kári
Vísindaráð almannavarna fundaði um stöðu mála í vegna jarðhræringanna í …
Vísindaráð almannavarna fundaði um stöðu mála í vegna jarðhræringanna í Bárðarbungu. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert