Má ekki bitna á þeim lægst launuðu

mbl.is/Hjörtur

Þingmaður Framsóknarflokksins segist ekki sjá hvernig hægt sé að samþykkja hækkun á virðisaukaskatti á matvæli nema á móti komi öflugar mótvægisaðgerðir sem tryggi að matarverð hækki ekki upp úr öllu valdi. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Karls Garðarssonar, þingmanns flokksins.

„Hátt hlutfall ráðstöfunartekna þeirra lægst launuðu fer í mat og þar er vart hægt að réttlæta hækkun. Það er hins vegar af hinu góða að einfalda virðisaukaskattskerfið. Þar er munurinn of mikil og of margir liðir undanskyldir,“ segir Karl.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lýst yfir vilja til þess að hækka lægsta virðisaukaskattsþrepið en lækka að sama skapi það hæsta en matvæli heyra meðal annars undir lægsta þrepið. Markmiðið er að einfalda virðisaukaskattskerfið. Einnig er ætlunin að draga úr undanþágum í kerfinu og afnema sykurskatt.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tekur í svipaðan streng í grein á vefsíðu sinni í dag. Hún segist sammála því að einfalda þurfi virðisaukaskattskerfið en og endurskoða löggjöfina um það heildstætt en það megi megi ekki koma niður á þeim sem hafa lægstar tekjur.

„Hægt er að komast hjá því með ýmsum mótvægisaðgerðum, svo sem hækkun persónuafsláttarins, auknum húsnæðisstuðningi og hækkun barnabóta. Í mínum huga eru þess háttar mótvægisaðgerðir forsenda einföldunar á virðisaukaskattskerfinu. Einföldun skattkerfisins má ekki koma niður á þeim sem minnst hafa.“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert