„Óðs manns æði“ að flytja fólk í Öskju

Gísli Rafn er bæði ferðaþjónustuaðili og björgunarsveitarmaður.
Gísli Rafn er bæði ferðaþjónustuaðili og björgunarsveitarmaður. Ljósmynd/Birkir Fanndal

„Við erum stærsti flutningsaðili á fólki í Öskju og höfum verið með þetta síðan 1980. Þetta er því auðvitað stórmál hvað varðar okkar tekjur, við erum bara með þessa Öskjuferð og nú er lokað og þar með engar tekjur,“ segir Gísli Rafn Jónsson, framkvæmdastjóri Mývatn Tours, en allar hans ferðir falla nú niður vegna lokana á hálendinu norðan Dyngjujökuls. Hann flytur að jafnaði á milli 30 og 40 manns á svæðið á degi hverjum.

Ferðaþjónustuaðili og björgunarsveitarmaður

Sú óvenjulega staða blasir hins vegar við að Gísli starfar einnig með björgunarsveitunum og er einn þeirra sem stendur vaktina og gætir þess að ekki sé farið inn vegina á svæðinu. Hann segir að þrátt fyrir tekjutapið séu lokanirnar einfaldlega eini kosturinn í stöðunni.

„Ég er algjörlega sammála þessari lokun. Óvissan er svo mikil að það er mjög alvarlegt mál að ætla að fara með fólk inneftir núna,“ segir Gísli.

„Ég er ósammála því sem kom fram hjá öðrum ferðaþjónustuaðila í dag sem vildi bara að farið væri í Öskju og taldi það allt í lagi. Þess vegna er ég búinn að standa í björgunarsveitarpeysunni í dag og loka veginum sem ég ek venjulega eftir.“

Ferðamenn sýna skilning

Gísli segir störf björgunarsveita hafa gengið vel í dag og allir hafi virt lokanir á svæðinu.

„Það gekk vel að loka og allir sem komu höfðu fullan skilning á málinu. Ég þurfti auðvitað einnig að byrja á að fara út á plan og aflýsa ferðum í morgun, en fólk skilur þetta undantekningarlaust og ekkert vandamál,“ segir Gísli.

Hann segir þetta þó vera í fyrsta sinn síðan árið 1980 sem fyrirtækið lendi í lokunum af þessu tagi, þó stundum hafi þurft að fresta störfum vegna veðurs.

„Við erum auðvitað í vandræðum með þær bókanir sem framundan eru og ekki alveg ljóst hvað við getum gert, en við virðum þetta. Það væri óðs manns æði að ætla með fólk inn á svæðið,“ segir Gísli.

Öryggi umfram fjármuni

Talsverður fjöldi fólks átti bókað pláss í skálum Ferðafélags Akureyrar, en Hilmar Antonsson, formaður félagsins, segir ljóst að tapið sé mikið.

„Það voru á milli 300 og 400 bókaðir út þetta tímabil sem átti að vera opið, síðan bætist einhver lausaumferð við það. Þetta kemur því verulega við,“ segir Hilmar.

Hann sýnir lokunum hins vegar skilning og telur ferðafélagsmenn ekki vera í aðstöðu til að gagnrýna ákvarðanir almannavarna. 

„Þetta hlýtur að vera gert út frá einhverjum gildum rökum og það skiptir meiru að fólk sé öruggt en að fjármunir fari í súginn,“ segir Hilmar.

Ein af rútum Gísla Rafns á vegi 88 inn í …
Ein af rútum Gísla Rafns á vegi 88 inn í Herðubreiðarlindir í sumar. Hann flytur að jafnaði 30 til 40 manns á svæðið á degi hverjum. mbl.is/Una Sighvatsdóttir
Gísli segir ferðamenn hafa tekið vel í lokanir björgunarsveitarmanna á …
Gísli segir ferðamenn hafa tekið vel í lokanir björgunarsveitarmanna á svæðinu. Morgunblaðið/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert