Flug eru öll samkvæmt áætlun

Guðjón Arngrímsson segir jarðhræringar ekki hafa áhrif á áætlun flugs …
Guðjón Arngrímsson segir jarðhræringar ekki hafa áhrif á áætlun flugs hjá Icelandair. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta hefur engin áhrif á okkar starfsemi,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurður hvort jarðhræringar í Bárðabungu og hugsanlegt eldgos hafi haft áhrif á bókanir á flugi hjá félaginu.

Guðjón segir ekki mikið um afbókanir. „Það er að sjálfsögðu þannig að fullt af fólki sem á bókað flug hefur áhyggjur og hringir inn eða sendir okkur pósta og er að velta vöngum, en það fær bara þau svör að það sé allt samkvæmt áætlun,“ segir hann.

Engin sérstök viðbragðsáætlun hefur verið útbúin hjá Icelandair vegna mögulegs goss, en Guðjón segir slíkar áætlanir þó til staðar nú þegar. „Við höfum okkar viðbragðsáætlanir varðandi frávik í flugi eins og gengur og gerist. Ef til þess kemur verður gripið til þessara áætlana, en það er útilokað að plana slíkt fyrirfram,“ segir hann. „Það er óvitað hvernig aðstæður myndu skapast.“

Fjölmiðlaumfjöllun erlendis haft mest áhrif

Guðjón segir orðanotkun erlendra fjölmiðla mikilvæg. „Orð eins og evacuation hljóma fyrir fólk úti í heimi eins og verið sé að flytja hundruðir eða þúsundir manna þó það sé í raun aðeins verið að flytja lítinn hóp fólks,“ segir hann. Þessa fjölmiðlaumfjöllun segir hann hafa haft mest áhrif á farþega sem hyggjast fljúga með Icelandair, og gert það að verkum að þeir hafa haft samband við félagið.

Greint var frá því á mbl.is á mánudag að hlutabréf Icelandair Group hafi fallið um 3,6% í verði í 360 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfanna stóð þá í 17,8 krónum á hlut, en var 18,4 krónur á hlut við lokun viðskipta á föstudag.

Miklar jarðhræringar hafa átt sér stað í Bárðarbungu síðustu daga.
Miklar jarðhræringar hafa átt sér stað í Bárðarbungu síðustu daga. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert