Hvetja til varkárni í umferðinni

Samgöngustofa mælir með því að börn séu með endurskinsmerki þegar …
Samgöngustofa mælir með því að börn séu með endurskinsmerki þegar tekur að rökkva. mbl.is/Árni Sæberg

Hátt í 1.600 sex ára börn hefja nám í grunnskólum borgarinnar nú í ágúst, en skólarnir verða settir á morgun. Alls verða grunnskólanemar í borginni rösklega 14.000 í vetur, en síðasta vetur voru þeir 13.635. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. Þar segir jafnframt að um 1.400 börn fædd á árinu 2012 hefji leikskólagöngu þetta haustið, en alls er gert ráð fyrir að um 7.000 börn verði í leikskólum borgarinnar í vetur.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu eru alls um 40.000 börn sem hefja skólaárið í grunnskólum landsins í ár og þar af um 4.500 börn sem munu byrja í 1. bekk.

Hvetja ökumenn til að sýna varkárni

Umferð þyngist verulega á mörgum þéttbýlisstöðum nú þegar skólar hefjast á ný og einnig fjölgar gangandi vegfarendum. Þóra Magnea Magnúsdóttir, fræðslustjóri hjá Samgöngustofu segir mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum að sýna varkárni og virða hámarkshraða.

„Það er aldrei eins mikilvægt og fyrst á haustin að brýna þetta fyrir ökumönnum,“ segir hún. „Nú eru litlir fætur að fara af stað, spenntir með skólatösku. Jafnvel svo spenntir að þeir eru ekki með athyglina í lagi,“ bætir hún við, og segir ökumenn því þurfa að passa sig á því að vera vakandi í umferðinni.

Þóra bendir á það að aukin umferð í kringum skóla geti skapað hættu, og því sé oft betra fyrir foreldra að ganga með börnum sínum í skólann. Hún segir þá mikilvægt að börn átti sig á öruggustu leiðinni í skólan, en öruggasta leiðin sé ekki alltaf sú stysta.

„Við sem erum eldri erum fyrirmyndir. Við þurfum öll að líta í eigin barm og vera fyrirmyndir hvað þetta varðar,“ segir Þóra að lokum. 

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið frá Samgöngustofu þar sem farið er yfir helstu atriði fyrir foreldra og börn á leið í skólann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert