Með skotleyfi í skjóli nafnleyndar

13 ára stúlka er grátbeðin um að setja inn nektarmynd og beiðnin áréttuð með PLZ!!!!! Jafnaldra hennar er spurð hvort hún sé hrein mey og sá sem spyr býðst til að bæta úr, sé sú raunin. 12 ára drengur er sagður svo ljótur og glataður að hann ætti að fara að hengja sig hið snarasta og piltur á svipuðum aldri er beðinn um að raða bekkjarsystrum sínum í röð eftir því hverri hann myndi helst vilja stunda kynlíf með. Þetta er meðal skilaboða sem lesa má á vefsvæðum barna undir fermingaraldri á samskiptasíðunni ask.fm, vefsíðu sem er öllum þeim opin sem hafa aðgang að netinu. Þar eru líka fjölmargar síður helgaðar óviðeigandi athugasemdum og myndum af nafngreindum börnum.

Vefsíðan hefur verið nokkuð í umræðunni að undanförnu, bæði hér á landi og annars staðar. Hún er aðallega notuð af börnum og ungmennum og hefur umræðan einkum snúist um gróf og meiðandi ummæli. Vefsíðan skipti um eigendur í síðustu viku og lofa nýir eigendur notendum auknu öryggi.

Allir geta skoðað síðurnar

Nokkur sjálfsvíg unglinga víða um heim hafa verið rakin til eineltis sem þau urðu fyrir á síðunni, en á ask.fm getur hver sem er spurt þá sem eru með vefsvæði á síðunni spurninga og ræður spyrjandinn hvort hann kemur fram undir nafni eða ekki. Við lauslega athugun virðast spurningarnar yfirleitt verið bornar fram nafnlaust og notendurnir virðast að öllu jöfnu vera börn eða unglingar. Síðurnar eru öllum opnar, einnig þeim sem ekki eru sjálfir með vefsvæði á síðunni.

Á vefsíðu Barnaheilla, Save the children, er ábendingarhnappur þar sem hægt er að tilkynna óviðeigandi efni á netinu. Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnisstjóri hjá Barnaheillum, segir samtökunum ekki hafa borist ábendingar sérstaklega vegna ask.fm, en þær hafi borist vegna annarra svipaðra síðna. „Sjálfsagt eru foreldrar ekki meðvitaðir um að börn þeirra séu þarna inni eða hvernig þessi síða er. Á undanförnum árum hafa alltaf komið reglulega upp einhver mál tengd síðum sem þessari. Ef við fáum tilkynningar um að verið sé að beita barn ofbeldi á síðum sem þessum, t.d. með því að birtar séu myndir þar sem barnið er sýnt á kynferðislegan hátt, kynferðislegt eða niðrandi tal um barnið, þá höfum við samband við tengilið okkar hjá lögreglunni sem setur málið í viðeigandi farveg.“

Að sögn Margrétar koma ábendingarnar oftast frá foreldrum þeirra barna sem verða fyrir áreitni. Oftast sé um kynferðislegt áreiti af einhverju tagi að ræða, t.d. myndir eða kynferðislegt umtal um barnið. Þá sé nokkuð um að tilkynnt sé að verið sé að reyna að tæla barn á netinu. „Stundum hefur slíkt verið í gangi í marga mánuði. Þetta byrjar gjarnan með því að barninu er hrósað, síðan er alið á vantrausti til foreldra og fjölskyldu. Gerandinn færir sig smám saman upp á skaftið og reynir að fá barnið til að sýna kynferðislega háttsemi.“

Nafnleynd skapar hættu

Margrét segist vita til þess að komið hafi upp eineltismál í skólum hér á landi vegna samskipta á ask.fm. Þó vefsíðan hafi verið á netinu í nokkur ár sé hún tiltölulega nýkomin í almenna notkun meðal grunnskólabarna hér á landi. „Það má heldur ekki gleyma því að það eru alltaf að koma nýjar síður og líklega margir foreldrar sem vita hreinlega ekki af því að barnið þeirra eigi vefsvæði þarna. Það er aldrei of oft sagt að á netinu gilda sömu samskiptareglur og annarstaðar og þar gildir líka almenn vernd og almennar forvarnir sem foreldrar veita börnum sínum. Núna er fjölskyldutölvan ekki lengur í opnu rými á heimilinu, eins og var fyrir nokkrum árum, núna eru allir og líka börnin með tölvuna í vasanum.“

Margrét segir að vefsíður á borð við ask.fm séu fyrst og fremst hugsaðar sem samskiptatæki og margir eignist góða vini á netinu. „En því miður hefur notkunin á henni [síðunni] farið út í óviðeigandi samskipti hjá allt of mörgum. Þarna er einhver í skjóli nafnleyndar í raun með skotleyfi á hvern sem er í formi spurninga, sem geta verið hvernig sem er; niðrandi, niðurlægjandi og jafnvel kynferðislegar. Sá sem fær spurningarnar er aftur á móti undir nafni. Það sem getur skapað hættulegar og meiðandi aðstæður á síðum á borð við ask.fm er þessi nafnleynd. Það getur verið ákveðin spenna sem fylgir því að vera spurður allskonar spurninga af einhverjum sem þú veist ekkert hver er, en eru það eðlileg samskipti að annar sé á bak við tjald og hinn berskjaldaður?“

Í eigu stórfyrirtækis

Ask.fm er lettnesk vefsíða stofnuð af bræðrunum Ilja og Mark Terebin og fór á netið fyrir rúmum fjórum árum. Notendur síðunnar eru um 180 milljónir, þar eru skrifaðar um 700 færslur á hverri sekúndu og síðan er aðgengileg á fjölmörgum tungumálum. Þegar ask.fm kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2010 var önnur áþekk síða nokkuð útbreidd, formspring.com, sem einnig var spurningasíða og var talsvert í umræðunni vegna neteineltis, líkt og ask.fm er nú.

Fyrr í þessum mánuði keypti bandaríska samsteypan IAC ask.fm, en meðal annarra netfyrirtækja í hennar eigu eru leitarvefurinn ask.com, Vimeo, dictionary.com og samskiptaforritið Tinder.

Í frétt BBC segir að við kaupin hafi verið ráðnir sérstakir öryggisráðgjafar sem eiga að stemma stigu við neteinelti. Þar kemur líka fram að IAC hyggist „verja milljónum“ til að auka öryggið á síðunni, meðal annars með því að setja upp ýmsar netvarnir og síur.

Nú þegar geta notendur ask.fm tilkynnt óviðeigandi hegðun sem þeir verða varir við á síðunni. Þar eru líka ítarlegir skilmálar um notkun hennar og lögð áhersla á að notendur beri sjálfir ábyrgð á því sem þeir kjósa að setja þar inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert