Sérstakar hjólatryggingar fyrir dýrustu hjólin

Sífellt fleiri þeysa um á rándýrum hjólum.
Sífellt fleiri þeysa um á rándýrum hjólum. mbl.is/Styrmir Kári

Nýlega gafst hjólreiðamönnum kostur á að fá sérstaka hjólatryggingu fyrir dýr hjól sem sum hver eru farin að kosta á við fólksbíl. Að sögn Fjólu Guðjónsdóttur, forstöðumanns forvarna hjá Sjóvá, komu upp þjófnaðir og skemmdir á dýrum hjólum í upphafi sumars og í kjölfarið hafi verið brugðist við þörf á markaði með því að bjóða upp á slíka tryggingu.

Líkt og er með hefðbundna heimilistryggingu er eigin áhætta 25% en munurinn er sá að heimilistrygging bætir einungis hjól upp að 400 þúsund krónum að hámarki, en reiðhjólatryggingin bætir hjól óháð verðmati þeirra.

Fjóla segir að borið hafi á auknum hjólreiðaþjófnaði í upphafi sumars en svo hafi dregið úr því. Bæði sé það vegna þess að færri eru hjólandi nú en eins hafi þjófnaðir í upphafi sumars gert það að verkum að fólk sé meira á varðbergi. Í tölum lögreglunnar kemur fram að henni hafi verið tilkynnt um 59 reiðhjólaþjófnaði í maí, 90 í júní en einungis 40 í júlí. „Sumir vöknuðu upp við það að þetta væru mjög dýrar eignir og að hefðbundnar tryggingar næðu ekki yfir svo dýr hjól,“ segir Fjóla.

Ekki skilja hjól eftir á almannafæri

Hún segir að ákveðnar forsendur þurfi að vera fyrir hendi til að fá bætur. „Í fyrsta lagi þarf reiðhjólinu að vera læst við einhvern hlut. Eins bætum við það ef brotist er inn í bíl og hjóli stolið,“ segir Fjóla. Engar bætur fást ef hjólið er ólæst eða skilið eftir á almannafæri.

Hjá Sjóvá fengust þær upplýsingar að ekki hefði verið farin sú leið sem tíðkast víða erlendis að bæta einungis tjón ef fólk er með séstaklega örugga lása. Hér á landi hafi tíðkast að láta hefðbundna hjólalása nægja.

Fjóla segir að hjólreiðamenn þurfi einnig að hafa í huga að fara eftir lögum í umferðinni. Margir líti svo á að þeir séu frjálsir og undanþegnir lögum þegar þeir stíga á hjólhestinn. „Hjólreiðamaður sem fer yfir á rauðu og brýtur þ.a.l. umferðarlög fær að sjálfsögðu slysabætur. En það eru dregnar af honum bætur vegna reiðhjólsins og hann gæti jafnvel þurft að greiða bætur ef hann skemmir bílinn,“ segir Fjóla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert