Skjálftarnir virðast ekki hafa færst norðar

Grannt er fylgst með jarðhræringunum í Vatnajökli.
Grannt er fylgst með jarðhræringunum í Vatnajökli. mbl.is/Styrmir Kári

Skjálftavirknin í norðanverðum Vatnajökli hefur verið mikil í nótt og stöðug eins og undanfarið, langflestir skjálftarnir mælast við innskotið undir Dyngjujökli á sömu slóðum og í gær og virðast ekki hafa færst norðar í nótt.

Flestir voru á 8-11 km dýpi en nokkrir (undir morgun) voru á um 5-6 km dýpi. Tveir skjálftar að stærð 3 urðu seint í gærkvöldi og nótt.

Rýming svæðisins gekk vel og er ekki vitað um mannaferðir við Kverkfjöll, Dreka og Herðubreiðarlindir. Rýmingu var fylgt eftir í gær og farið í frekari eftirgrennslan inn á lokaða svæðið.

Hættustig, sem var lýst yfir 19. ágúst, er enn í gildi.

Bændum veitt undanþága

Aðgerðarstjórn á Húsavík hefur veitt bændum undanþágu til smölunar á svæðinu að því tilskyldu að þeir skrái sig inn á svæðið og út aftur. Þeir sem fara inn á lokaða svæðið þurfa að hafa til þess sérstakt leyfi Almannavarna.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Flugvél Landhelgisgæslunnar,TF-SIF, flaug yfir Vatnajökul í gær og stóð leiðangur hennar yfir frá kl. 13 og framundir klukkan 20. Með í för voru fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Jarðvísindastofnunar og Safe Travel. Kannaðar voru aðstæður við Bárðarbungu og safnað efni með hitamyndavél, eftirlits- og ratsjárbúnaði. Flugvélin tók eldsneyti á Egilsstöðum um kl. 16:45 og var síðan haldið áfram rannsóknum á svæðinu. Einnig var svipast um eftir mannaferðum á svæðinu norðan Vatnajökuls sem er lokað. Vísindamenn frá Veðurstofunni voru á ferð á jöklinum í gær, annars vegar við Kverkfjöll og hins vegar í nánd við Brúarárjökul. Tilgangur ferðarinnar var að koma fyrir jarðskjálftamælum og GPS stöðvum.

Funda með viðbragðsaðilum á Húsavík

Fundur viðbragðsaðila og hagsmunaaðila verður haldinn á Húsavík klukkan 12 í dag. Þar munu fulltrúar almannavarna, lögreglan á Húsavík og vísindamenn gera grein fyrir stöðunni og fara yfir aðgerðir. Fundinn sitja einnig fulltúar frá sveitarfélögum, bændum, heilbrigðiskerfinu og fleirum.

Sams konar fundur er ráðgerður á Egilsstöðum á föstudag. Þá er ráðgerður íbúafundur í Öxarfirði klukkan 20 í kvöld í Öxarfjarðarskóla í Lundi.

Samráðsfundur ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis og innanríkisráðuneytis með ríkislögreglustjóra var haldinn í gær. Þar gerðu fulltrúar almannavarna grein fyrir stöðunni.

Eftirfarandi hálendisvegir eru lokaðir í samráði við Almannavarnir: F- 910 Austurleið (Dyngjufjallaleið), F903 Hvannalindavegur, F902 Kverkfjallaleið, F905 Arnardalsleið og F88 Öskjuleið. Hægt er að nálgast kort hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert