Álit umboðsmanns enn til skoðunar

Makríll.
Makríll. mbl.is/Helgi Bjarnason

Til skoðunar er innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hvernig hlutdeilarsetja eigi makríl í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis frá því fyrr í sumar. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði ríkisstjórninni grein fyrir málinu á fundi hennar í morgun.

Eins og greint var frá í byrjun júlímánaðar komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun stjórnvalda að hlutdeildarsetja ekki makrílstofninn árin 2011 til 2013 hafi ekki verið í samræmi við lög. Umboðsmaður tók málið fyrir vegna kvörtunar tveggja útgerðarfélaga sem telja sig hafa orðið fyrir skaða af þessum sökum. Ætla fyrirtækin að sækja bætur vegna málsins.

Sigurður Ingi sagði í kjölfarið í samtali við Morgunblaðið að hann hafi talið eðlilegra að hlutdeildarsetja makríl, þ.e. að miða við veiðireynslu, og það hafi komið til álita í ráðuneytinu að gera það í vetur sem leið.

„Við féllum hins vegar frá því þar sem málið var þá komið til umboðsmanns Alþingis og okkur fannst skynsamlegra að bíða eftir leiðbeiningum hans,“ sagði ráðherra.

Enn eru nokkur álitaefni hvað varðar hlutdeildarsetningu sem þarf að skera úr um og var ríkisstjórninni gerð grein fyrir þeim á fundinum í morgun.

Sigurður Ingi hefur jafnframt lýst því yfir að nú þegar álit umboðsmannsins liggi fyrir séu betri forsendur en áður til að ákveða hvernig standa megi að hlutdeildarsetningu makríls.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert