Hafa áhyggjur af þöggun bænamálsins

Frá bænastundinni í morgun.
Frá bænastundinni í morgun. mynd/Árni Svanur

Um 300 manns tók þátt í bænastund sem var haldin í rjóðri Útvarpshússins í morgun þar sem útvarpsstjóri, Magnús Geir Þórðarson, var ávarpaður. Viðstaddir fóru fram á að Orð kvöldsins verði áfram á dagskrá Rásar 1 en ekki samþætt morgunbæninni eins og gert sé ráð fyrir.

Bjarni Karlsson sóknarprestur stýrði bænastundinni en við upphaf athafnarinnar svifu tvö rauð hjörtu til himins sem tákn um það að bæn er frá hjarta til hjarta, að því er segir í tilkynningu.

Ávarpið, sem Guðrún Ásmundsdóttir leikkona flutti, er svohljóðandi:

„Ríkisútvarpið liggur íslenskri þjóð við hjartastað. Það sem gerist hjá útvarpinu gerist með þjóðinni.

Við færum þér þessa bænabók sem tákn um feginleika okkar, beiðni og áhyggju.

Við erum fegin þeirri áheyrn sem viðbrögð okkar hafa fengið hjá þér og samstarfsfólki þínu og þakklát þeirri niðurstöðu að morgunbæn skuli áfram berast á öldum ljósvakans auk þess sem við bætist nýr hálftíma þáttur um trúmál á víðum grundvelli.

Bón okkar er sú að Orð kvöldsins haldi stöðu sinni í dagskránni svo sem verið hefur en verði ekki samþætt morgunbæninni eins og í ráði er.

Áhyggjur okkar varða stöðu bænamálsins í menningunni. Við óttumst ekki að bænin sé að hverfa eða bænamálið að þagna með þjóðinni. Fólk biður og mun halda áfram að fela allt sem því er kært góðum Guði á vald. Bæn er heilbrigð iðkun og mikilvægur þáttur í heilsu og farsæld almennings í landinu. Hún færir ungum visku, er haldreipi þeirra sem þjást og þegar aldur færist yfir veitir hún frið sem er æðri öllum skilningi.

Áhyggjur okkar snúa að þöggun bænamálsins í almannarýminu og ríkisútvarpið er áhrifavettvangur í því samhengi.

Er það von okkar að áfram fái að þróast það farsæla samstarf sem ríkt hefur með Ríkisútvarpinu og kristninni í landinu. Útvarp allra landsmanna er mannlífsspegill. Án bænar væri sá spegill brotinn,“ segir í ávarpinu.

Fram kemur í tilkynningu, að Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, hafi veitt tveimur bænabókum frá hópnum viðtöku fyrir hönd útvarpsstjóra og fylgdi þeim kort með ávarpinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert