Segir of háan VSK á ferðaþjónustu geta haft víðfeðm áhrif

Helga telur hækkun á VSK í ferðaþjónustu geta haft slæm …
Helga telur hækkun á VSK í ferðaþjónustu geta haft slæm áhrif á greinina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í dag búum við hér við mjög flókið og mjög íþyngjandi virðisaukaskattskerfi,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is, í kjölfar ályktunar sem stjórn SAF hefur sent frá sér vegna umræðu um virðisaukaskatt í ferðaþjónustu. Hún segir það ljóst að ef bætt verði við nýju virðisaukaskattsþrepi, eins og umræða hefur verið um, verði það til þess fallið að flækja hlutina enn frekar.

Að mati Helgu hefur umræðan um virðisaukaskatt í ferðaþjónustu verið heldur einföld, en fjallað var um það á mbl.is fyrir viku síðan að fjölmargar atvinnugreinar sem tengjast ferðaþjónustu séu undanþegnar virðisaukaskatti. Kom þar fram að ríkissjóður verði af stórum upphæðum vegna þessa á hverju ári. Helga segir þetta ekki rétt enda spili mun fleiri þættir þar inn í. „Við verðum að horfa á stóru myndina. Til að mynda geta þessi fyrirtæki ekki nýtt sér innskatt og eins er mikið um afleiddar tekjur sem taka þarf inn í útreikningana,“ segir hún, en SAF undirstrika að óbein áhrif ferðaþjónustunnar efli hagkerfið enn frekar.

Telur mikilvægt að einfalda virðisaukaskattskerfið

Þá kom fram í umfjöllun mbl.is að hót­el- og gistiþjón­usta er í lægra þrepi virðis­auka­skatts­ins og er aðeins greidd­ur 7% skatt­ur í stað 25,5% eins og af stór­um hluta annarr­ar þjón­ustu­greina. „Það kom til umræðu fyrir rúmu ári síðan að fara með hótelin í þetta 14% þrep, en það var fallið frá því þegar menn áttuðu sig á flækjustiginu og líka hversu kostnaðarsamt það væri að vera með sérstakt virðisaukaskattsþrep fyrir 6-700 lögaðila auk þess hversu mikil áhrif það gæti haft á samkeppnisstöðuna,“ segir Helga.

Í ályktuninni frá stjórn SAF kemur fram að ferðaþjónustan sé sú atvinnugrein sem skapar íslensku hagkerfi mestan gjaldeyri, og eru hagsmunir ferðaþjónustunnar að einfalda virðisaukaskattskerfi greinarinnar. Helga segir mikilvægt að horfa á heildarmyndina þegar talað er um að einfalda þetta kerfi. „Við höfum talað fyrir því að það þurfi að einfalda kerfið en það þarf að taka vel ígrunduð skref þar sem horft er til allra þátta,“ segir hún. „Það eru miklir möguleikar í þessari atvinnugrein en við verðum að stíga varlega til jarðar.“

Hefur víðfeðm áhrif ef VSK er of hár á ferðaþjónustu

Í ályktuninni bendir stjórn SAF jafnframt á að flest hótel leigja þá fasteign sem hótelið starfar í. Því skilar stór hluti virðisaukaskattsins sér til ríkissjóðs í gegnum leigutekjur fasteignafélaga sem eiga viðkomandi eignir. Þá segir að taka þurfi á leyfislausri starfsemi sem snýr m.a. að gistingu.

Ferðaþjónustan er alþjóðleg atvinnugrein og bendir SAF á að hækkun á virðisaukaskatti hafi bein neikvæð áhrif á samkeppnishæfni greinarinnar. „Stóra málið er þessi víðfeðmu áhrif sem það getur haft ef virðisaukaskattur er hafður of hár á ferðaþjónustuna. Við erum í alþjóðlegri samkeppni hvað varðar áfangastað og ef við erum með mun hærra skattþrep en gengur og gerist annars staðar er hætta á að við spilum okkur út af markaðnum. Þetta hefur til að mynda gerst í Danmörku þar sem virðisaukaskattur á gistingu er 25%, en þar hefur fjöldi gistinátta fækkað í kjölfarið,“ segir Helga að lokum.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert