Mastrið fyrir flóðasvæðið féll

Björgunarsveitamenn börðu ísingu af möstrum á Viðarfjalli við Þistilfjörð í …
Björgunarsveitamenn börðu ísingu af möstrum á Viðarfjalli við Þistilfjörð í janúar, en mastur Rúv féll til jarðar. Ljósmynd/Björgunarsveitin Hafliði

Ástæða þess hve útsendingar Rúv hafa náðst illa í Kelduhverfi og Öxarfirði er m.a. sú að útvarpsmastur Rúv á Viðarfjalli féll til jarðar vegna ísingar í byrjun árs. Nýtt mastur kom upp fyrir nokkrum dögum síðan. Auk þess er unnið að því laga loft net á Auðbjargarstaðarbrekku, sem mun bæta skilyrðin mjög.

Nokkuð var rætt um léleg útsendingarskilyrði Ríkisútvarpsins á hugsanlegu flóðasvæði, á borgarafund sem almannavarnir og lögregla stóðu fyrir í Öxarfirði í gærkvöldi. Heimamenn lýstu þar áhyggjum vegna málsins, enda komi yfirvöld helst skilaboðum til íbúa í gegnum útvarpið.

„Þetta hefur verið slæmt í nokkur ár og heldur versnað ef eitthvað er, m.a. vegna bilana. Við höfum sent Rúv fyrirspurn um hvort eitthvað sé hægt að bæta útsendingarskilyrðin á svæðinu,“ sagði Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna í samtali við mbl.is í gær.

Mikil ísing safnaðist á möstrin

„Dreifikerfi okkar er í sífelldri endurnýjun. Þar er unnið eftir stóru plani en svo brugðist við þegar möstur eða snendar bila,“ segir Gunnar Örn Guðmundsson, forstöðumaður tæknisviðs hjá Rúv. Hann bendir á að uppbygging, hönnun og bestun á dreifikerfi sé verkefni sem aldrei klárast.

„Upphaf vandamálsins þarna er að það hrundi hjá okkur mastur á Viðarfjalli í byrjun árs og það er meiriháttar mál, bæði hvað varðar vinnu og peninga, að ganga frá því og koma öðru mastri upp.“ Gunnar Örn segir að svona lagað gerist reglulega og sé vandamál sem öll fjarskiptafyrirtækin glími við.

Mastrið, sem var 48 metra hátt, gaf eftir undan vindi vegna mikillar ísingar þann 1. janúar. Eftir það lágu FM útsendingar Rúv niðri í Kelduhverfi og Öxarfirði. Langbylgjuútsendingar nást efitr sem áður vel á svæðinu auk þess sem stafrænar útsendingar og netþjónusta eru með eðlilegum hætti. „Það er því ekki hægt að ssegja að þó FM útsendingar falli niður sé öryggi stefnt í hættu,“ segir Gunnar Örn.

Rúv hefur unnið með sérfræðingum Vodafone að því að setja upp nýjan búnað til að bæta það sem brást, bæði með nýju loftneti á Viðarfjalli og viðgerð á loftneti í Auðbjargarstaðarbrekku.

Sjá fyrri frétti mbl.is: 

48 metra hátt mastur féll til jarðar

Mastrið ekki upp á næstunni

Viðgerðum hraðað vegna Bárðarbungu

„Það mun laga Öxarfjörðinn, en öll þessi atburðarás er alveg óháð ólgu undir Vatnajökli, þetta átti að gerast hvort sem er,“ segir Gunnar Örn. Vegna atburðarrásarinnar við Bárðarbungu var þó ákveðið að hraða viðgerðum á FM sendum á svæðinu og er vonast til að þeir verði komnir í betra horf eigi síðar en 26. ágúst

Gunnar Örn bendir á að dreifikerfi Rúv sé mikið að umfangi og samanstandi af tæplega 200 FM og langbylgjusendum um allt land, auk stafrænna sjónvarpsútsendinga sem innihalda útvarpsútsendingar, gervihnattaútsendingar auk dreifingar Rúv.is í gegnum net. 

„Því miður þekkja allir að hökt getur komið í flest þessi dreifikerfi um stundarsakir,“ segir Gunnar Örn. Eðli dreifikerfa, hvort sem það er fyrir útvarp, rafmagn, vatnsveitu eða annað, sé að þau þarfnast sífellds viðhalds og endurnýjunar. 

Markmið Ríkisútvarpsins hefur ætíð verið að bæta dreifikerfi sitt og það hefur alls ekki breyst. Vonast er til að efla dreifikerfi RÚV á næstu árum.

Unnið við möstrin á Viðarfjalli í janúar síðast liðnum.
Unnið við möstrin á Viðarfjalli í janúar síðast liðnum. Ljósmynd/Björgunarsveitin Hafliði
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert