Sá stærsti hingað til

Þróun skjálftavirkni í norðanverðum Vatnajökli/Bárðarbungu.
Þróun skjálftavirkni í norðanverðum Vatnajökli/Bárðarbungu. mbl.is/Elín Esther

Jarðskjálfti upp á 4,7 stig reið yfir skömmu fyrir miðnætti í gær. Upptök skjálftans voru 4 km suðaustur af Bárðarbungu og er skjálftinn sá stærsti sem mælst hefur í þeim jarðhræringum sem hafa verið í norðanverðum Vatnajökli síðan aðfararnótt laugardags.

Samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands sjást enn ekki nein merki um að kvika sé á leið til yfirborðs.

Rúmlega 2.100 jarðskjálftar hafa mælst í Vatnajökli síðustu tvo sólarhringa. Enn er skjálftavirkni mjög mikil á þessum slóðum þrátt fyrir að fremur rólegt sé á svæðinu núna. 

Jarðskjálftarnir í nótt eru á svipuðum slóðum og jarðskjálftar sem hafa mælst undanfarna daga þannig að ástandið er óbreytt en áfram mikil virkni, segir sérfræðingur sem mbl.is ræddi við á Veðurstofu Íslands í morgun.

Bætt við klukkan 6:47

„Skjálftavirkni við Bárðarbungu og Dyngjujökul er enn mikil. Þó dró nokkuð úr henni upp úr kl. tvö í nótt.
Hátt í fjögur hundruð skjálftar hafa mælst sjálfvirkt síðan á miðnætti og sem fyrr er langstærstur hluti þeirra staðsettur austan Bárðarbungu, við kvikuinnskotið. Flestir skjálftarnir sem farið hefur verið yfir eru á miklu dýpi, 8-12 km, en þó hafa örfáir verið staðsettir upp undir tæplega 4 km dýpi, allra austast/nyrst. Skjálftavirknin virðist að hluta hafa færst lítið eitt til norðurs.

Rétt fyrir miðnætti í gærkvöld, klukkan 23:50:22, varð skjálfti við Bárðarbungu og mældist hann 4,7-4,8 stig. Einn til viðbótar náðir stærðinni M 3. Síðustu daga hefur nokkur fjöldi jarðskjálfta mælst innan/við öskju Bárðarbungueldstöðvarinnar á 2 - 6 kílómetra dýpi.  Þessir skjálftar verða líklega vegna breytinga á þrýstingi þegar kvika úr kvikuhólfi undir öskjunni leitar til austurs í innskot,“ samkvæmt upplýsignum frá Sigurlaugu Hjaltadóttur, jarðeðlisfræðingi á Veðurstofu Íslands.

Minnir á Kröfluelda

Líkt og fram kom í gær telja jarðvísindamenn berggang hafa myndast undanfarna daga í sprungu sem liggur frá suðvestri til norðausturs um Dyngjujökul.

Í gær var flæði kvikunnar talið hafa hægt töluvert á sér. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir í samtali við Morgunblaðið það eðlilega þróun.

„Þegar svona berggangur myndast þá fer flæðið vanalega hratt af stað en hægir svo á sér eftir því sem hann lengist, þar sem mótstaðan við flæðið eykst með lengd berggangsins. Því er alveg viðbúið að kvikustraumurinn hægi á sér. Horfa þarf þó á lengra tímabil áður en einhverju slíku er spáð með vissu.“

Hann segir skjálftana oftast vera á því svæði þar sem gangurinn er að lengjast. „Skjálftarnir verða þannig helst við broddinn á straumnum þar sem hann liggur um sprunguna.“

Aðspurður hversu lengi kvikan sé að storkna segir hann það fara eftir því á hvaða dýpi hún sé.

„Einnig fer það mjög mikið eftir því hversu þykkan berggang kvikan myndar. Ef hann er tvöfalt þykkari þá er kvikan fjórfalt lengur að storkna. Varminn í bergganginum helst þá betur í honum sjálfum.“ Hann segir að þessi gangur ætti að storkna tiltölulega hratt. „Þessi gangur virðist ekki vera nema metri á breidd svo það tekur hann örugglega nokkra daga að storkna þegar flæðið stöðvast. En dögunum fjölgar fljótt um leið og berggangurinn þykknar.“

Hann segir það erfitt að segja til um gerð kvikunnar sem streymir úr iðrum Bárðarbungu. „Líkast til hefur hún svipaða efnasamsetningu og sprungugosin á Dyngjuhálsi eða þá Veiðivatnagosið. Oft er þó meira á seyði í svona megineldstöðvum og því er erfitt að segja. Ef gos verður þá munu vísindamenn taka sýni og sjá hvers kyns kvikan er.“

Aðspurður segir hann að storknun kvikunnar fylgi að öllu jöfnu ekki skjálftavirkni. „Yfirleitt hætta skjálftarnir um leið og kvikustreymið, að minnsta kosti þessir stærri.“

Hann segir Kröflueldana, sem áttu sér stað á árunum 1975 til 1984, hafa gefið vísindamönnum mikla reynslu af myndun bergganga. „Þá voru í kringum 20 svona atburðir þannig að þetta samband á milli skjálfta og kvikustreymis er vel þekkt þaðan. Þessi atburðarás núna minnir í raun sífellt meira á Kröflueldana.“

Páll segir aðstæður til mælinga vera mun betri núna en þegar Kröflueldarnir áttu sér stað. „Með tilkomu stafrænu tækninnar í kringum árið 1990 varð algjör bylting hvað varðar mælingatækni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert