Slys á Langjökli og á Kili

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út vegna tveggja slysa sem urðu við Langjökul og á Kili. Samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni varð vélsleðaslys á jöklinum en vélhjólamaður slasaðist á Kili.

Fólkið verður flutt á sjúkrahús í Reykjavík. Nánari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Þá flutti þyrla Gæslunnar unga konu á slysadeild fyrr í dag sem slasaðist er hún féll af hestbaki í Víðidal.

Uppfært kl. 15:45: Að sögn lögreglunnar á Selfossi bárust tilkynningar um slysin tvö nánast á sömu mínútunni. Á Langjökli virðist vera sem kona sem var á ferð með hópi ferðafólks hafi velt vélsleðanum yfir sig. Ekki liggur fyrir hvers kyns meiðsl hennar eru.

Litlar upplýsingar liggja fyrir um vélhjólaslysið á Kili þar sem sá sem tilkynnti um það þurfti að fara nokkra leið til að komast í símsamband, og sneri svo aftur til hins slasaða. Lögreglumenn frá Selfossi eru á leið á vettvang slyssins til frekari rannsóknar.

Bæði mótorhjólamaðurinn og konan sem slasaðist á Langjökli voru sótt af sömu þyrlunni, sem er nú á leið með þau á Landspítalann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert