Svefn mikilvægur í byrjun skólaárs

Svefn er mjög mikilvægur fyrir börn að sögn Erlu Björnsdóttur.
Svefn er mjög mikilvægur fyrir börn að sögn Erlu Björnsdóttur. AFP

Að ýmsu er að huga þegar skólarnir byrja, en að sögn Erlu Björnsdóttur, sálfræðings, er grunnurinn að börn fái góðan svefn og komist í rútínu eins fljótt og mögulegt er. Erla er sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi (HAM-S) og sinnt þeirri meðferð undanfarin ár hjá Sálfræðiráðgjöfinni. Einnig heldur hún úti heimasíðunni Betri svefn.

„Það er oft sem rútínan fer í algjört rugl í fríinu; börn eru farin að sofa á sama tíma og fullorðna fólkið, sofa út og þess háttar,“ segir Erla. Hún segir best að byrja að leiðrétta mynstrið smám saman nokkrum dögum áður en skólarnir byrja. Í skólum á höfuðborgarsvæðinu eru skólasetningar í dag, og telur Erla helgina því kjörna til að koma svefnvenjum í rétt horf.

„Það er gott að byrja að vakna hálftíma fyrr á morgnanna og fara að sofa hálftíma fyrr á kvöldin til dæmis,“ segir hún, og bætir við að ekki sé gott að gera það allt í einu á fyrsta skóladeginum.

Best að forðast tölvur og sjónvarp fyrir svefninn

Erla segir mikilvægt fyrir foreldra að hafa í huga hvað börnin séu að gera á kvöldin. „Það er gott að reyna að koma upp rólegri rútínu á kvöldin. Fyrir börn er til dæmis ekki gott að vera að spila fótbolta alveg þangað til þau leggjast á koddann, því þá er adrenalínið á fullu og þau ekki orðin nægilega þreytt,“ segir hún.

Erla segir bæði börn og foreldra eiga algjörlega að forðast tölvur og sjónvarpsgláp síðasta klukkutímann fyrir svefninn. „Frekar er gott að fara í bað og lesa saman eða eitthvað slíkt. Þá gírar maður líkamann niður og gerir hann klárann fyrir svefninn,“ segir hún. Þá segir hún gott að undirbúa næsta dag með því að gera skólatöskuna og fötin tilbúin, svo ekki myndist stress í morgunsárið.

Mikilvægt að halda rútínunni

„Það er mjög mikilvægt þegar skólinn er byrjaður að halda rútínunni og ekki láta allt fara í rugl um helgar,“ segir Erla og bætir við að kennarar í grunn- og framhaldsskólum taki oft eftir því á mánudögum að nemendur séu ósofnir eftir helgina. „Það tekur líkamann nokkra daga að venjast því að vakna aftur á réttum tíma svo það er best að vera ekki að snúa sólarhringnum alveg við,“ segir hún.

Svefnleysi hefur áhrif á mætingu eldri krakka

„Svefnleysi hjá eldri krökkum hefur áhrif á mætingu í skóla og bein áhrif á námsárangurinn,“ segir Erla. Hún segir unglinga þurfa aukinn svefn, en vegna félagslegra þátta sé staðreyndin hinsvegar sú að þeir sofi minna.

„Rannsóknir eru að sýna okkur það að ef við myndum seinka skólum til klukkan 9 á morgnanna þá gætum við séð mun betri námsárangur og meiri ánægju hjá starfsfólki og nemendunum sjálfum,“ segir Erla, og bætir við að þetta hafi verið gert víða í Skandinavíu og Bandaríkjunum með mjög góðum árangri.

„Að byrja í skólanum aðeins seinna og klára seinna á daginn er eitthvað sem ég tel vera mjög góða hugmynd,“ segir Erla að lokum.

Erla Björnsdóttir sálfræðingur segir svefn mjög mikilvægan.
Erla Björnsdóttir sálfræðingur segir svefn mjög mikilvægan. Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert